145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 97/2016 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn.

864. mál
[19:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að segja til um það hvort ég sé hlynntur inngöngu Íslands í Evrópusambandið fyrr en það (Gripið fram í.) liggur fyrir hvað það þýðir. En ef við mundum klára það sjálfsagða verk að halda bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður mundi ég sennilega greiða atkvæði með því að halda þeim viðræðum áfram. Ég sé enga ástæðu til að gera það ekki alla vega að svo stöddu, hef ekki heyrt góð rök gegn því.

En í Evrópumálunum birtast, finnst mér, ákveðnar mótsagnir, eins og sú að við viljum ólm taka upp þessa löggjöf en erum einhvern veginn samt á móti því að þurfa að gera það. Ég sé ekki alveg hvernig menn eru að nálgast þetta heildstætt án þess að takast á við spurninguna á endanum, hvort við viljum vera aðilar að Evrópusambandinu eða ekki. Sú spurning fer líka fyrr eða síðar út í EES-samstarfið út af þessari togstreitu. Ég er svo sem ekki með neina heildarlausn á því. En ef menn ætla að fara að endurskoða það hljóta þeir raunverulega að ætla að gera það. En þá velti ég líka fyrir mér í hvaða samningsstöðu þeir telja Ísland vera, vegna þess að við erum orðin ansi háð þeim markaði og með réttu vegna þess að við höfum þennan aðgang. Við viljum auðvitað ekki missa þau góðu tækifæri sem við höfum.

Ég sé því ekki alveg hvernig menn horfa fram á veginn þar án þess að ræða alvarlega í það minnsta að halda áfram aðildarviðræðunum og fá fram samning.

Sömuleiðis, vel á minnst. Það er önnur mótsögn í þessu sem ég sé. Menn kvarta undan því og kvörtuðu sáran undan því á síðasta kjörtímabili að þetta væru aðlögunarviðræður, að með viðræðunum væri verið að aðlaga Ísland svo mikið. Nú hef ég ekki séð eitt einasta þingmál lagt fram af hæstv. ríkisstjórn til að taka burt þann meinta skaða. Ekki eitt. Ég sé hins vegar dælt inn EES-málum sem eru meiri aðlögun, sem við höfum ekkert um að segja sem síðan er kvartað undan því að við höfum ekkert um að segja.

Ég verð því að segja, virðulegi forseti, að ég get tekið undir margt sem hv. þingmaður sagði, en ég sé alla vega ekki að umræðunni um ESB sé lokið í bili, sama hvað mönnum finnst um ástandið akkúrat eins og það er núna.