145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 97/2016 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn.

864. mál
[19:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fékk þá útskýringu um daginn að ástæðan fyrir því að stjórnarskráin þolir EES-samstarfið sé nú aðallega vegna þess að réttarfarsleiðin til að takast á við það sé í reynd ekki fyrir hendi og ekki hægt að reyna á hana til fullnustu sem er auðvitað það sem við tölvumennirnir köllum hakk, ég kann ekki að segja það á skárri íslensku, virðulegi forseti, það er einhvers konar mix. Það virkar ekki alveg ef maður hugsar það til enda, en einhvern veginn tollir það saman bara út af því hvernig réttarkerfið og stjórnarskráin virkar, en vissulega ekki samkvæmt hönnun heldur samkvæmt því hvernig hlutirnir æxluðust.

Mér finnst það góðra gjalda vert og einnig mikilvægt þegar við ræðum um ESB, vegna þess að núna hef ég talað á hátt sem alla vega hv. þingmaður telur jákvæðan og sjálfsagt margir aðrir, að það er eitt sem við þurfum að hafa mjög vel í huga þegar kemur að Evrópusambandinu og það er að læra af mistökunum sem hafa verið gerð.

Þá ætla ég að nefna Brexit hérna á seinustu mínútunni. Ég dró þann lærdóm af Brexit og þeirri andúð sem hefur vaxið víða í Evrópu gagnvart Evrópusambandinu að Evrópusambandið hefur þá ímynd að það virði lýðræðið að vettugi. Hvort sem það er rétt eða ekki þá er mjög mikilvægt að sú ímynd sé ekki til staðar. Það er alveg eins með réttarfarið. Það er ekki nóg að réttlætinu sé fullnægt, það þarf líka að sjást að réttlætinu sé fullnægt. Þarna held ég að ef við höldum áfram aðildarviðræðum að Evrópusambandinu að það liggi verulega á að við sýnum gott fordæmi í því og séum trú okkar orðum um að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild bindandi þannig að ekkert vafamál sé um að það sé þjóðin sem ákveði það. Þetta þykir mér algjört lykilatriði. Ég hygg að ef menn ætla að fara einhverja aðra leiðir en þær þá munu þeir bara lenda í ógöngum síðar meir. Ég tel Brexit vera eina birtingarmynd þess. Ég óttast að þær verði fleiri. En áhrifin þar hafa verið reyndar verið í þá átt að maður sér ekki fram á að margar aðrar stórþjóðir sjái sér hag í því að fara úr sambandinu, en að sama skapi mikilvægt að Evrópusambandið lagi þessa ímynd, hvort sem hún er rétt eða röng.