145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[19:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurninguna. Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt að við vinnum saman að þessu máli. Það hefur tekið ákveðinn tíma. Ég var upplýst um að það þyrfti aðeins meiri vinnu við málið áður en ég gæti komið fram með það. Ég hef ekki borið þá tillögu sem kom frá hv. þingmanni saman við það sem við komum hér fram með, en ég vænti þess vegna mikilvægi þessa máls að við getum öll staðið saman og veitt þessu máli brautargengi. Ég geri fastlega ráð fyrir því að svo verði vegna þess að það er með ólíkindum, ég verð bara að segja eins og er, að við séum ekki komin lengra með málið. Ísland ritaði undir þennan samning árið 2007.

Eins og ég sagði í framsögu minni er auðvitað búið að gera heilmikið til þess að bæta stöðu fatlaðs fólks á Íslandi og við þurfum enn frekar að vinna að því. Ég tel til að mynda að það eftirlitskerfi sem felst í samningnum sé afskaplega mikilvægt. Ég held og ég treysti reyndar á það að við munum öll standa saman að því í þessu húsi.