145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[19:49]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra treystir því að við getum staðið saman í þessu húsi um samþykkt þessarar tillögu. Við getum staðið saman um að samþykkja þessa tillögu þess vegna næsta mánudag eða þriðjudag eftir ríkisstjórnarfund ef hæstv. utanríkisráðherra færi með málið þar aftur inn. Eins og ég sagði áðan hefst ný nefndarvinna um þessa tillögu í nýrri nefnd, allsherjar- og menntamálanefnd. Það tekur tíma.

Þess vegna spyr ég aftur: Af hverju leggur ekki bara hæstv. utanríkisráðherra það fyrir ríkisstjórnina að tillaga til þingsályktunar frá 13 þingmönnum í minni hluta, sem tekur algjörlega á þessu máli og er nákvæmlega eins orðuð, verði samþykkt? Það er spurning mín til hæstv. ráðherra. Það væri mikill bragur að því ef ríkisstjórnin mundi nú aðeins líta yfir hól sinn og sjá til þess að þessi tillaga yrði samþykkt. Ég býð upp á að tillagan verði samþykkt á mánudag eða þriðjudag vegna þess að þá verður nefndavinnu og umfjöllun lokið.