145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[20:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er sögulegur áfangi þegar fyrir liggur að það er fullur vilji framkvæmdarvaldsins ásamt fullum vilja Alþingis, eins og hér hefur verið rakið, til þess að fullgilda hér samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það hefur verið baráttumál mjög margra um mjög langa hríð. Fatlað fólk hefur barist ákaflega lengi fyrir því. Þegar ég var utanríkisráðherra og tók þetta mál upp í ríkisstjórninni var niðurstaðan sú að farið yrði í það að skoða með hvaða hætti þyrfti að breyta lögum og ýmsum gerningum til þess að hægt yrði að standa við þær skuldbindingar sem fullgilding samningsins fæli í sér. Ef ég man rétt og eftir mínu roskna og dvínandi minni voru það líkast til 17 breytingar sem gera þurfti á íslenskum lögum. Það þurfti sömuleiðis að koma upp ákveðnum umbúnaði stofnana til þess að hægt yrði að fullgilda samninginn þannig að stjórnvaldið gæti í reynd staðið við skuldbindingarnar sem það axlaði með þessu.

Hæstv. ráðherra á þakkir skildar fyrir að upplýsa það sem ég vissi ekki áður, að eitt af því sem fyrirhugað er er að koma upp innlendri mannréttindastofnun, eða ég skildi a.m.k. hæstv. ráðherra með þeim hætti. Hugsanlegt er að sökum persónulegra aðstæðna síðustu viku, tíu daga hafi það farið fram hjá mér, en ég hef ekki séð það frumvarp hér í þinginu og veit ekki hvort búið er að leggja það fram. En þar er um að ræða mál sem sannarlega væri hægt að ræða mikið um. Ég ætla ekki að gera það hér og nú, en ég hef haft mjög sterkar skoðanir á því hver ættu að vera verkefni slíkrar stofnunar og hefði getað spurt hæstv. ráðherra um hvort það væri vilji ríkisstjórnarinnar að t.d. eftirlit með framfylgd samningsins gegn pyndingum væri þar undir, og ég gæti nefnt ýmis önnur verkefni. Ég ætla ekki að gera það. Ég lýsi einungis ánægju minni yfir því að málið skuli vera komið það langt að það liggur fyrir að ríkisstjórnin er á bak við það og hefur sýnt fullan vilja með framlagningu þessa máls til þess að samningurinn verði staðfestur. Sömuleiðis liggur það fyrir með þeirri vinnu sem fram hefur farið í viðeigandi fagnefndum að stjórnarandstaðan í þinginu og stjórnarmeirihlutinn í þinginu eru sammála um málið. Eins og hér var upplýst áðan var búið að ganga frá og fjalla um tillögu sem var efnislega samhljóða þeirri sem nú hefur verið lögð fram. Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að enginn munur sé á henni og þeirri tillögu og hún leggur fram nema að það vantaði íslenska þýðingu á enskum samningstexta. Þetta eru mjög góð tíðindi fyrir fatlað fólk. Þetta skiptir mjög miklu máli.

Ekki vil ég spilla ánægju ríkisstjórnarinnar og veislugleði hæstv. utanríkisráðherra með því að benda þó á sitthvað sem sýnir kannski ekki alls staðar sama góða viljann hjá þessari ríkisstjórn og birtist í ræðu hæstv. ráðherra. Á nákvæmlega sama tíma og við fjöllum um samning sem bannar mismunun gegn fötluðu fólki er staðan samt sem áður sú að fatlað fólk sem nýtur notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, svokallaðrar NPA-stuðnings, er með sín mál í fullkominni óvissu. Eins og menn muna var hér ákveðið tilraunaverkefni í gangi sem fól m.a. núverandi ríkisstjórn þá skyldu á herðar að fyrir árið 2014 skyldi vera búið að koma þeim málum á hreint hvernig ætti að fjármagna það til framtíðar. Var ríkisstjórninni sömuleiðis fyrirlagt af samþykkt Alþingis varðandi framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks að fyrir árslok 2015 skyldi vera búið að leggja fram frumvarp um hvernig notendastýrðri persónulegri aðstoð skyldi háttað. Það mál var framlengt um eitt ár. Enn hvílir því sú skylda á þessari ríkisstjórn að leggja fram slíkt mál. Á meðan eru tugir mjög fatlaðra einstaklinga sem geta varla unnið sér það frelsi sem þeir eiga skilið samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði og jafnrétti, að fá að lifa sínu lífi. NPA var ein glæsileg leið til þess, kostnaðarsöm að vísu, en enn þá eru deilur á millum ráðuneyta og millum stjórnvaldsins og sveitarfélaga um með hvaða hætti ríkið á að greiða sinn part af kostnaðinum. Það þýðir t.d. að í Reykjavík, í mínu kjördæmi, eru 13 einstaklingar sem njóta vissulega slíkrar liðveislu, en það eru fleiri á biðlista. Það er ekki hægt að ganga frá þessum málum vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki staðið við sitt.

Ég er ekki að skamma hæstv. ráðherra fyrir það. Ég er bara að benda á að það er eins og hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri er að gera. Sá góði hugur sem birtist hjá hæstv. utanríkisráðherra í ræðum til að fylgja fram þessu máli birtist ekki hjá þeim hæstv. ráðherra sem á að sjá um þetta.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að hér er verður ekki þing næstu daga. Því máli verðum við með einhverjum hætti að ljúka fyrir þinglok og ekki er færi á að taka þetta upp við hæstv. félagsmálaráðherra. Þess vegna nota ég tækifærið til þess að segja þetta hér.

Ég lýsi miklum stuðningi við þetta mál, eins og ég hef áður gert bæði innan og utan ríkisstjórnar. Áætlað er að u.þ.b. 10% af öllum þeim sem búa á hnettinum teljist til fatlaðs fólks. Það er því sannarlega hægt, eins og stendur einhvers staðar í greinargerð, að líta svo á að þessi 10% séu langstærsti minnihlutahópur heimsins. Hingað til hefur fyrst og fremst verið fjallað um málefni þessa hóps innan þeirra kerfa sem við fellum undir velferð og heilbrigðisþjónustu, en það er mjög sjaldan sem málefni þeirra eru rædd á grundvelli mannréttinda einstaklinga.

Þessi samningur snýst um mannréttindi einstaklinga. Það er þannig sem við eigum að nálgast það, ekki síst við sem höfum verið hér lengi á dögum og við sem viljum vinna að því að koma upp velferðarsamfélagi þar sem er pláss fyrir alla og þar sem er tekið utan um alla.

Í þessum samningi er að finna ákveðin meginsjónarmið sem eru sannarlega jákvæð. Það sem skiptir kannski mestu máli er að hæstv. ráðherra nefndi að hér væri á leiðinni sérstakt frumvarp sem varðaði það mál, þ.e. bann við mismunun, sem er að finna í 5. gr. þessa samnings. Það sætir furðu að á Íslandi skuli ekki vera fyrir löngu búið að samþykkja slík lög, sér í lagi þegar horft er til þess að innan Evrópusambandsins er fyrir löngu búið að taka upp slík réttindi í gegnum lagasetningu að ég held í flestum löndum ESB. En af einhverjum ástæðum hafa EFTA-ríkin eða EES/EFTA-ríkin hliðrað sér fram hjá því að taka þetta upp.

Með þessum samningi er verið að skjóta fyrir það. Fyrir utan bann við mismunun byggir samningurinn á því að allir eigi að hafa jöfn tækifæri. Það sem gleður mig alveg sérstaklega er að sérstaklega er tekið á tækifærum fatlaðra barna og undirstrikað að við, stjórnvaldið, eigum að bera virðingu fyrir getu þeirra og líka fyrir því með hvaða hætti þau þróast og breytast með aldrinum. Við eigum öll að sýna virðingu, ekki síst stjórnvaldið, fyrir rétti þeirra til þess að varðveita sjálfsmynd sína. Það er það sem skiptir svo miklu máli fyrir ákaflega marga.

Að lokum, þó ég gæti haldið miklu lengri ræðu um þetta vil ég lýsa ánægju minni með þetta mál. Ég tel einfaldlega að hér sé um að ræða svo mikilvægan áfanga í réttindabaráttu fatlaðs fólk að þingið þurfi að skoða hug sinn ákaflega vel varðandi framvindu þess. Jafnvel þótt ekki liggi fyrir öll frumvörp um nauðsynlegar lagabreytingar er fullgildingin miklu meira en táfesta í réttindabaráttu fatlaðs fólks sem við höfum, öll sem höfum látið okkur þann málaflokk varða, alltaf stutt í gegnum árin. Ég er viss um að ég á eftir að heyra það í ræðum sem hér verða fluttar á eftir.

Menn hafa rætt þá staðreynd að fyrir liggur þingmál frá ýmsum þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem er orðað næstum nákvæmlega á sama hátt. Sömuleiðis hefur verið upplýst að það mál hefur nánast verið afgreitt út úr nefnd, þannig að samstaða er um það.

Hér hafa verið bornar brigður á að hægt væri að afgreiða málið vegna tímaskorts. Þá hlýt ég að velta fyrir mér: Ekki þarf að tvívinna þessi mál ef búið er að vinna hitt málið, leita umsagna og sömuleiðis að skoða hnökra á framkvæmdinni eins og hún liggur fyrir. Þá hlýtur að vera hægt að nota þá vinnu og fella hana saman við umfjöllun þessa máls án þess að það þurfi sérstaklega að senda það út til umsagnar. Ég leyfi mér sem sagt þann munað að hugsa hér upphátt í ræðustól á þennan veg: Getur ekki verið að vinnan sem þarf að inna af höndum til þess að geta lokið afgreiðslu þessarar tillögu sé þegar fyrir hendi og við getum nýtt hana til þess að afgreiða þetta mál þótt ekki séu nema níu þingdagar eftir?