145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[20:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að þetta mál sé komið fram eins og aðrir sem hér hafa talað. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þetta mál sé þess eðlis að það ætti að renna mjög mjúklega í gegn. Ég legg til að þingmenn einbeiti sér að því, allir sem einn, að tryggja að það verði raunin, að þetta fari hratt í gegnum nefnd og komist sem fyrst til atkvæðagreiðslu. Þá legg ég til að það verði sem allra fyrst til þess að það sé þá útkljáð og sé ekki hluti af stíflu sem gæti myndast hér á lokadögum þingsins eins og frægt er orðið.

Það er leiðinlegt að kvarta þegar gott mál kemur fram, mikilvægt mál og nauðsynlegt mál sem margsinnis og í mjög langan tíma hefur verið bent á að sé nauðsynlegt. Og það hafa margir kvartað réttilega undan því að þetta hafi komið seint fram og að við séum seint að þessu. En ég hygg líka að það sé í sjálfu sér ekki við hæstv. utanríkisráðherra að sakast þar. Eins og bent hefur verið á í ágætri ræðu hv. 10. þm. Suðurkjördæmis, Páls Vals Björnssonar, hafa verið lögð fram mál og það hefur komið fram í gögnum þingsins að við eigum að vera löngu búin að geta gert þetta. Það var til dæmis tillaga hv. 7. þm. Norðaust. Kristjáns L. Möllers. Af hverju var sú tillaga ekki samþykkt? Af hverju hefur hún ekki fengið fulla þinglega meðferð? Mig langar aðeins að drepa á því sama og hv. þm. Páll Valur Björnsson nefndi hér áðan að hættan við svona mál, eins og við öll önnur mál, væri sú að egóið þvældist fyrir okkur, að egóið þvældist fyrir þingstörfum. Ef réttu nöfnin væru einfaldlega á þessari tillögu þá fullyrði ég að hún hefði fengið allt öðruvísi meðferð. Þetta er því miður pólitísk staðreynd á Íslandi, sennilega alls staðar. Það er ekki víst að mikið sé við því að gera, en það er rétt að minnast á það þegar maður sér að það er bersýnilega tilfellið. Í því felst ekki áfellisdómur yfir einstaka hæstv. ráðherra eða einstaka hv. þingmönnum, ekki einu sinni virðulegum forseta, heldur einfaldlega ábending um það hvernig svona kerfi geta brugðist fötluðu fólki vegna þess að við stjórnmálamennirnir erum of uppfullir af okkar eigin egói til þess að láta hagsmuni þeirra og réttindi hafa forgang.

Aftur. Ég er ekkert viss um að það sé endilega hægt að gera mikið í því þegar til lengri tíma er litið, en það er eins gott að við áttum okkur á því ef við ætlum einhvern tímann að reyna að gera betur en það. Ef við værum algjörlega laus við það hvaðan tillögur kæmu þá held ég að þingsályktunartillaga hv. þm. Kristjáns L. Möllers væri löngu orðin að ályktun Alþingis. Ég held sömuleiðis að frumvarp hv. þm. Freyju Haraldsdóttur, varaþingmanns Bjartrar framtíðar, væri orðið að lögum. Það er nú reyndar eitt atriði þarna sem ég hefði aðeins getað kvartað undan sem er 233. gr. a í almennum hegningarlögum, en það er vegna þess að ég er á móti því hvernig greinin sjálf er orðuð — það er ekki upptalningin sem ég hef út á að setja, hún er réttmæt — og mundi þess vegna styðja málið hvort sem er. En það er eiginlega allt og sumt sem hægt er að segja að sé raunverulega pólitískt til fyrirstöðu þessum málum annað en hver leggur þau fram.

Mér finnst rétt að benda á þetta. Sömuleiðis er alveg þess virði að velta því fyrir sér hvort yfir höfuð sé þörf á því að þingið álykti um það sérstaklega að fullgilda þennan samning, hvort það sé ekki fullkomlega löglegt nú þegar. Það gildir í sjálfu sér einu vegna þess að Alþingi ætti ekki að eiga í neinum vandræðum með að fullgilda það sjálft. Það væri reyndar hollt fyrir málið til að sýna það sem ég vænti fastlega að verði algjör samstaða þingheims um, þ.e. að samþykkja þetta mikilvæga mál og þar með undirstrika mikilvægi og réttmæti málsins.

Það er ekki meira sem mig langar að segja að sinni, virðulegi forseti. Mér fannst rétt að koma þessu áleiðis. En auðvitað skulum við, fyrst hingað er komið, líta björtum augum á málið og sameinast um að þetta mál nái til fullrar þinglegrar meðferðar og til atkvæðagreiðslu sem allra fyrst.