145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[20:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er að mínu mati einhver merkilegasti mannréttindasáttmáli sem hefur verið gerður. Það sem er svo merkilegt við þennan samning er að hann tryggir ekki neinum nein ný mannréttindi, það er ekkert sem ekki hefur verið sett inn í aðra mannréttindasáttmála áður. Þetta felur sem sagt ekki í sér nein ný réttindi til fatlaðs fólks. Staðreyndin er sú að fatlað fólk hefur ekki notið sinna mannréttinda líkt og aðrir, þ.e. aðrir almennir mannréttindasáttmálar hafa ekki náð til fatlaðs fólks þegar til kastanna hefur komið.

Það sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks gerir er að hann viðurkennir og undirstrikar að mannréttindi fatlaðs fólks séu þau sömu og annarra og staðfestir rétt fatlaðs fólks til þess að njóta þessara réttinda. Það er það sem er svo merkilegt við þennan samning.

Hingað til hefur verið litið á málefni fatlaðs fólks sem viðfangsefni heilbrigðiskerfisins, sem viðfangsefni velferðarkerfisins, oft sem viðfangsefni einhvers sem við þurfum að fjalla um og setja sérstakar reglur um til hliðar við annað í samfélaginu. Ástæðan fyrir tilurð þessara alþjóðlegu mannréttindasáttmála er sú staðreynd að þrátt fyrir að fatlað fólk eigi í orði kveðnu að eiga sömu mannréttindi og aðrir þá höfum við með kerfunum okkar ekki gert fólki kleift að nýta þessi réttindi sín. Það var auðvitað þess vegna sem það var svo mikilvægt, og fólk fagnaði eðlilega, þegar Ísland skrifaði undir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hinn 30. mars árið 2007. Það er auðvitað af þessari sömu ástæðu sem fatlað fólk og ýmis baráttu- og hagsmunasamtök fatlaðs fólks hafa kallað eftir að við fullgildum þennan sama samning.

Ég fagna því svo sannarlega að nú virðist loksins komið að því að Ísland muni fullgilda samninginn. Ég hefði svo gjarnan viljað að það hefði verið gert fyrr og hef raunar kallað eftir því héðan úr þessum ræðustól að vinnu við lagabreytingar sem hafa verið listaðar upp og nauðsynlegt er að fara í, breytingar á íslenskri löggjöf, verði hraðað vegna þess að það hefur verið notað sem rök fyrir því af hverju ekki er búið að fullgilda samninginn að breyta þurfi íslenskri löggjöf.

Nú bregður allt í einu svo við að hæstv. ríkisstjórn virðist telja sig geta spólað yfir þann part og að hægt sé að fara í fullgildingu án þess að búið sé að breyta öllum lögunum. Ég ætla svo sannarlega ekki að gera ágreining um það, en vek hins vegar athygli á tímasetningunni. Mér finnst það svolítið sérstakt að þessi breyting á stefnu verði hér nú á síðustu dögum þingsins. Og líkt og hefur verið rakið hér í andsvörum þá var lagt fram þingmannamál sem var samhljóða þeirri þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram í nafni hæstv. utanríkisráðherra sem við erum búin að ræða og hefur verið til meðferðar í þinginu. Þannig að við hefðum að mínu mati alveg getað verið búin að gera þetta fyrir mörgum vikum eða mánuðum. Það er ekkert sem hefur breyst í hinu lagalega umhverfi á þessum tíma. Ég get bara ekkert að því gert, en mér finnst þess vegna því miður líkt og hæstv. ríkisstjórn sé að nota þetta mál í aðdraganda kosninga. Mér finnst það svolítið leiðinlegt að það sé þannig sem Alþingi Íslendinga klárar málið.

Að því sögðu mun ég svo sannarlega engu að síður leggja mitt af mörkum til þess að samningurinn verði fullgiltur vegna þess að það skiptir máli fyrir fatlað fólk, alveg gríðarlegu máli fyrir fatlað fólk. Það er ágætlega gert hér, hvernig það er listað upp í athugasemdum með þessari þingsályktunartillögu, hvaða lög það eru sem þarf að breyta til þess að íslensk löggjöf sé í samræmi við þennan samning. Það er bara vinna sem nýtt þing stendur frammi fyrir að loknum kosningum og í raun er búið að búa í haginn, búið að vinna þar ákveðna undirbúningsvinnu. Það er vinna sem hefur verið í gangi allt frá því hv. þm. Ögmundur Jónasson var hæstv. innanríkisráðherra. En við búum auðvitað að þeirri vinnu því að auðvitað þarf að breyta lögunum.

Það sem kannski er stóra málið og mun, þegar á hólminn er komið, kannski reynast það erfiðasta, þegar kemur að þessum samningi og inntaki hans, er að við sem þingmenn og við sem samfélag tileinkum okkur inntak þessa samnings til þess að hann virki. Til þess að ná tilætluðum árangri og til þess að tryggja, líkt og samningurinn gerir ráð fyrir, mannréttindi fatlaðs fólks þurfum við í raun að hafa í huga, í öllu okkar starfi hér á Alþingi, að öll þau lög sem samþykkt eru á Alþingi þarf að spegla í þessum samningi til þess að athuga hvort þau muni nú ekki örugglega ná til fatlaðs fólks þegar á reynir. Í því liggur stóra breytingin sem mannréttindasamningur af þessu tagi á að tryggja.

Þess vegna tel ég reyndar, líkt og ýmis samtök fatlaðs fólks hafa bent á og raunar krafist, að það skipti svo miklu máli að við stígum næsta skref. Nú fullgildum við samninginn en svo stígum við skrefið alla leið og lögfestum hann líka til þess að fatlað fólk geti þá kært til Sameinuðu þjóðanna ef það telur að íslensk stjórnvöld séu að brjóta á rétti þess. Ég trúi því og treysti að þessi samningur verði (Forseti hringir.) núna fullgiltur og tel að það verði góð og mikil réttarbót fyrir fatlað fólk á Íslandi.