145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[20:53]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er með mikilli gleði að ég tala hér um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég held að við séum öll sammála um það sem höfum talað í þessari umræðu, sem hefur verið mjög góð, að við þurfum ekki að vera með neinn hráskinnaleik með að þetta mál þarf að klárast fyrir þinglok. Það er auðvitað bara í okkar höndum, það er í höndum þingsins, það er í höndum nefndanna og nefndarinnar og það er okkar að sjá til þess að þetta klárist.

Þessi samningur var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2006, og árið 2007 var 81 þjóð búin að skrifa undir samninginn, síðan hafa þær samtals orðið 166 og Íslendingar eru meðal þeirra þjóða sem hafa skrifað undir þennan samning og núna þurfum við að fullgilda hann. Við þurfum að ljúka því fyrir þinglok og við þurfum að nýta þau gögn sem eru til í þessu máli eins og hér hefur komið fram til að flýta þessari afgreiðslu sem mest má. Síðan þarf að fara í þær lagabreytingar sem tryggja þau réttindi sem fatlaðir einstaklingar hafa beðið eftir og ég veit að það ríkir mikil gleði víða í samfélaginu þar sem einstaklingar með fötlun búa á sínum heimilum eða sambýlum og þeir hafa beðið eftir þessum degi. Ég vona að við rísum undir því að gleðja þá.

Markmið þessa samnings er að stuðla að, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og að jöfnu allra mannréttinda og mannfrelsis og að stuðla að virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.

Í skilgreiningum með þessum samningi segir m.a. að tungumál taki til talaðs máls og táknmáls og annars konar máls sem ekki er talað. Mismunun vegna fötlunar merkir hvers konar aðgreiningu, útilokun eða takmörkun vegna fötlunarinnar.

Ég hef talað hér um vandamál heyrnarlausra sem fá ekki bækur til að læra í skólanum. Nú er það liðin tíð. Það verður ólöglegt að láta það endurtaka sig eins og hefur gerst oft áður. Það er bann við mismunun með þessum samningi og við skulum virða það. Full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar fyrir alla, jöfn tækifæri, jafnt aðgengi, jafnrétti milli karla og kvenna. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar þess. Við erum að tala um velferð fyrir alla.

Þá segi ég fyrir okkur öll: Ég lýsi yfir ánægju minni með þetta mál. Ég lýsi yfir ánægju minni með það hvernig þingmenn hafa talað hér í dag og ég ætla sérstaklega að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að koma með þetta mál inn í þingið. Ég hvet hana og mun hjálpa henni til að ljúka þessu máli fyrir þinglok. Við getum ekki boðið upp á neitt annað.