145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:09]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ef stjórnarmeirihlutinn ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér og fylgja þeim rökum sem flutt voru hér áður um að þetta mál þyrfti að vera í atvinnuveganefnd vegna þess að verið væri að flytja virkjunarkosti í nýtingarflokk þá hlýtur málið að koma til kasta umhverfisnefndar vegna þess að hér er verið að setja allnokkra kosti í verndarflokk. Hvaða þekking er fyrir hendi innan atvinnuveganefndar á því? Hafa menn verið að vernda eitthvað þar? Eru friðlýsingarferli í gangi hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni? Það er ekki þannig. Ef menn ætla að vera með einhverjar röksemdir hérna á einum tíma þá hljóta þær að ganga heilt yfir. Það gengur ekki að menn séu með einhver hentirök hverju sinni og komi síðan og segi: Ja, vegna þess að við gerðum þetta svona síðast þá ætlum við að gera þetta aftur núna. Það eru bara engin rök.

Við hljótum að gera þær kröfur að menn og stjórnarmeirihlutinn rökstyðji málflutning sinn þannig og að þau rök standi þá.