145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:13]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér þykir þessi umræða með algjörum ólíkindum, að það eigi að senda þetta mál inn í atvinnuveganefnd. Við erum að ræða umhverfismál, risastórt umhverfismál, sem er það að virkja náttúruauðlindir Íslands. Að sjálfsögðu á það að fara í umhverfisnefnd. Við erum að ræða það að þegar við skrifum undir risastóra samninga um t.d. loftslagsbreytingar og þar fram eftir götunum gerum við það á forsendum náttúrunnar. Við þurfum að ræða svona áætlanir, eins og rammaáætlun er, á forsendum náttúrunnar. Þess vegna á þetta heima í hv. umhverfis- og samgöngunefnd en ekki atvinnuveganefnd. Þetta snýst ekki um peninga, þetta snýst um hvernig við náum sem bestri framtíð, hvernig við viðhöldum náttúrunni okkar með sem besta móti. Það er alveg með ólíkindum að þau rök skuli koma frá hæstv. umhverfisráðherra að meiri reynsla sé í atvinnuveganefnd. Það er náttúrlega bara til skammar.