145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta hafa verið fróðlegar umræður. Það var auðvitað mjög óheppilegt að hæstv. umhverfisráðherra skyldi orða það svo að það væri meira vit og meiri þekking innan atvinnuveganefndar en umhverfis- og samgöngunefndar. Það voru rökin. Ég beið eftir ræðu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, formanns nefndarinnar. Ég taldi að hann mundi koma og hrekja af sér þann áburð að nefndin sem hann stýrir byggi ekki yfir þekkingu til að fjalla um mál sem beinlínis varðar vernd og nýtingu, en hann kemur hingað og lætur ráðherrann í reynd hengja nefndina upp á löppunum, hann gengur svipugöngin og ég vona að hv. þingmaður verði upplitsdjarfari þegar hann gengur til vígaferlanna sem bíða hans um helgina.

Herra forseti. Ég tel sjálfur að með engu móti sé hægt að bera þetta mál saman við hið fyrra mál sem hér hefur verið vísað til þar sem um var að ræða tillögu um eina tiltekna framkvæmd. Hérna er verið að ræða um að taka virkjunarkosti og setja þá í verndarflokk og ótti okkar er vitaskuld sá (Forseti hringir.) að þessarar tillögu bíði þau örlög hjá atvinnuveganefnd að það eigi að breyta einmitt því. Ég hefði óskað eftir því að hv. formaður nefndarinnar kæmi a.m.k. og hefði skýra skoðun. Hér liggur fyrir að tveir þingmenn Framsóknarflokksins eru (Forseti hringir.) þeirrar skoðunar að málið eigi að fara í umhverfis- og samgöngunefnd. Eigum við ekki, herra forseti, að gefa þeim tíma til þess aðeins að vega þetta og meta, (Forseti hringir.) og ákveða hvort þeir þori að fylgja sannfæringu sinni í málinu?