145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það áðan og vitnaði í ræðu þáverandi umhverfisráðherra og núverandi hæstv. forsætisráðherra þar sem hann lýsti því að síðast þegar ein framkvæmd var sett inn í nýtingarflokk hafi það í raun og veru verið frávik. Það var ágætlega rökstutt í ræðu hans, þó að við höfum ekki verið sammála því. Það var a.m.k. tilraun til að rökstyðja það faglega hvers vegna rammaáætlun ætti að fara inn í atvinnuveganefnd. Hér er ekki einu sinni gerð tilraun til að vera faglegur í röksemdum fyrir því af hverju rammaáætlun, verndaráætlun, eigi að fara inn í atvinnuveganefnd, heldur ákveður ráðherra að setja sig á háan hest og dæma atgervi manna í nefndum þingsins.

Þetta er ekki boðlegt, virðulegi forseti, og ég fer fram á það að forseti þingsins óski eftir faglegum rökstuðningi frá þessum ráðherra. Í gegnum nefndina, umhverfis- og samgöngunefnd, hefur farið fjöldinn allur af stórum málum í góðu samstarfi við ráðherrann. (Forseti hringir.) Þetta voru þakkirnar fyrir samstarfið nú þegar hún er að hætta.