145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:25]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta eru svo sem ágætar umræður hér. Þær hafa átt sér stað nokkrum sinnum áður á þessu kjörtímabili sem og hinu fyrra, um nákvæmlega sama hlutinn. Það er ljóst að í þingsköpum er ætlast til þess að mál af þessum toga geti farið í hvora nefndina sem er. Hér er lagt til að það fari til atvinnuveganefndar. Ég treysti báðum nefndum fyllilega, það er fagþekking og geta í öllum nefndum þingsins sem er jafnstæð. Þess vegna held að við ættum að ganga til atkvæða, drífa þetta af, það liggur ekkert á bak við, svo ég svari þeim þingmönnum sem hafa verið að ýja því að hér séu undirliggjandi einhverjir baksamningar um að það eigi að fara að gera eitthvað annað. Við gerum okkur öll ljóst að það eru ekki mjög margir dagar eftir af þessu þingi og þessi tillaga er búin að fara í gegnum fyrri umr. Hún fer til einnar fagnefndar sem er jafnstæð annarri og samkvæmt þingsköpum í lagi. Þá held ég að við eigum að drífa það af að greiða atkvæði um það svo að nefndin geti farið að taka til starfa.