145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hélt að það væri að verða komið nóg af óhreinni verkaskiptingu og loðnum landamærum þingnefnda á þessu kjörtímabili. Má í því sambandi nefna tilburði formanns fjárlaganefndar og aðstoðarmannsins að breyta sjálfum sér í tveggja manna stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. En mér finnst það óendanlega dapurlegt að hlusta á umhverfis- og auðlindaráðherra leggja til að tillaga hennar fari í nýtingarnefndina. Það er auðvitað táknrænt fyrir framgöngu þessarar ríkisstjórnar á þessu málasviði og hún ætlar greinilega að enda eins og hún byrjaði í þeim efnum.

Það eru ekki rök fyrir þessari vísan nú að skapast hafi einhvers konar hefð fyrir óeðlilegri vísan málsins og þess vegna eigi að halda því áfram, auk þess sem málið er allt öðruvísi vaxið. Þetta er á verksviði umhverfis- og auðlindaráðherra, tillagan snýr bæði að nýtingu, bið og verndun og maður spyr sig að lokum: Af hverju stíga þá ekki stjórnarflokkarnir bara skrefið til fulls og færa málaflokkinn frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eða leggja það ráðuneyti niður? Er það kannski það sem þá langar mest til? (Gripið fram í.)