145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:28]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér þykir mjög miður að í þessu máli öllu varðandi áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða skuli koma núna á síðustu stundum upp deilur um hvar tillagan skuli fá frekari afgreiðslu innan þingsins. Það hefur verið leitast við að hafa sátt í þessu máli alla tíð og það hefur verið mér mjög mikils virði að geta unnið þannig til beggja handa. Tillagan hér er að vísu lögð fram í mínu nafni og ætla ég ekki að skorast undan því en í samráði og samvinnu við orkumálaráðherrann. Þannig er þessi tillaga og þess gat ég líka í framsögu minni í gær.

Það var óheppilegt orðalag, svo ég segi það einu sinni enn, ég biðst velvirðingar á óheppilegu orðalagi sem ég viðhafði í gær en endurtek samt að það var niðurstaða mín eftir að ég lá yfir málinu að vegna þeirrar vinnu sem hafði verið viðhöfð í atvinnuveganefnd væri eðlilegt að tillagan færi þangað.