145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt að ummæli sín væru óheppileg og hefur beðist velvirðingar á þeim. Ég tek það til greina og vona að þingheimur geri það líka. Málið sem hér er undir er alls ekki galið mál, það kom fram hjá mörgum okkar sem tókum þátt í umræðunni í gær að það væri vel þess virði að skoða hvort ekki væri hægt að samþykkja það. Það kann að vera hið besta í málinu fyrir báða vængi umræðunnar. En upphaf þessa máls og þau átök sem hér stefnir strax í drepa alla möguleika á því að málið fari í gegn. Þess vegna beini ég því til hæstv. ráðherra að hún endurskoði afstöðu sína og láti að vilja þeirra sem vilja fá málið til umhverfis- og samgöngunefndar. Það er friðardúfa, það gæti leitt til þess að það tækist að ná sátt um það. Sjálfur er ég alveg reiðubúinn að greiða minn atbeina að því. Hin leiðin leiðir til þess að þetta mál festist hér og það verður ekkert úr því. Þetta er skynsemdarleiðin sem við eigum að fara.