145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það var nú skrýtið að heyra hæstv. umhverfisráðherra láta eins og það kæmi sér á óvart að þessi tillaga hennar skapaði hér ágreining. Ég veit ekki hvað hún hefði átt að gera annað miðað við forsögu málsins.

Að því marki sem ákvæði þingskapa eru ekki afgerandi hér, sem ég reyndar tel þau vera og alveg ástæðulaust að komast að annarri niðurstöðu þar við lestur þess en að þetta eigi að fara í umhverfis- og samgöngunefnd, en að því marki sem menn telja þau ákvæði ekki afdráttarlaus, til hvers ber þá að horfa? Jú, til verkaskiptingar innan Stjórnarráðs Íslands á grundvelli forsetaúrskurðar. Málaflokkurinn er hjá umhverfis- og auðlindaráðherra. Á hvaða lögum er tillagan byggð sem hér er flutt? Á löggjöf sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra. Ef menn eru í einhverjum vafa er þetta það sem venjan er að líta til og þá breyta menn samkvæmt því. Þess vegna er fullkomlega óeðlilegt að þessari tillögu frá umhverfis- og auðlindaráðherra sem fer með málaflokkinn skuli vísað yfir í nýtingarnefndina, nefnd sem almennt tekur ekki við málum frá þessum ráðherra heldur frá hinum. Þetta segir sig alveg sjálft.