145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég ítreka þá afstöðu mína að ég tel að forseti eigi að ræða við framkvæmdarvaldið um það að hér sé komið með boðlegar röksemdir fyrir því að taka ákvarðanir eins og hér er verið að gera. Það hefur ekki verið gert, ekki á faglegum forsendum í það minnsta. Hér segir síðan í þingsköpum um umhverfis- og samgöngunefnd að nefndin fjalli um umhverfismál, skipulags- og byggingarmál og rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt.

Svo skýrt stendur það hér. Ef áætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda á ekki heima undir þessari skilgreiningu, hvað þá? Og að umhverfisráðherra skuli ekki standa með sinni samstarfsnefnd í þinginu, standa með þeim málaflokkum sem eru á hennar málasviði, er mér algjörlega óskiljanlegt. Ég er mjög sorgmædd yfir því að menn séu að taka þetta mál enn og aftur inn í deilufarveg að óþörfu.

Á síðasta kjörtímabili var málið einfaldlega flutt til umhverfis- og samgöngunefndar (Forseti hringir.) sem fjallaði um síðustu áætlun. Það var vegna fráviks sem var rökstutt af þáverandi umhverfisráðherra, núverandi forsætisráðherra, sem málið var tekið fyrir í atvinnuveganefnd síðast.

Málið á heima í umhverfis- og samgöngunefnd.