145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:08]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af yfirlýsingu hæstv. forseta hér rétt áðan um skýrsluna illræmdu, þar sem forseti túlkar það sem svo að aldrei hafi í raun og veru verið lögð fram skýrsla í málinu heldur einungis gagn eða plagg, þá er það nú svo að þetta plagg var kynnt á blaðamannafundi sem skýrsla í nafni fjárlaganefndar Alþingis. Það er grafalvarlegur hlutur, virðulegi forseti, þegar nafn þingsins og stofnana þess er misnotað með þeim hætti sem þar gerðist. Það hefur aldrei verið fjallað um þessa skýrslu í fjárlaganefnd. Við vinnslu hennar var andmælaréttur brotinn á þeim sem um var fjallað, sem er líka grafalvarlegt mál, ég tala nú ekki um þegar nafn þingsins er lagt þar við. Maður hlýtur að kalla eftir viðbrögðum hæstv. forseta varðandi þann þátt málsins. (Forseti hringir.) Það er ódýr afgreiðsla að segja að hér hafi ekki verið lögð fram skýrsla heldur bara plagg. (Forseti hringir.) Forseti hlýtur að hafa skoðun á því hvort þingmenn geta notað nafn þingsins með þessum hætti.