145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skildi forseta þannig áðan að hann teldi að þingmennirnir tveir hefðu gengið allt, allt of langt, farið langt út fyrir þær heimildir sem þeir hafa til þess að fara með valdheimildir sínar sem formaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis. Þannig skildi ég forseta hér áðan. Hann heldur því fram að þetta sé eingöngu plagg sem enn þá sé til umfjöllunar í nefndinni. Það var nú aldeilis ekki kynnt þannig. Þegar maður les þessa skýrslu þá er það bara einfaldlega þannig að þetta var kynnt á blaðamannafundi sem skýrsla meiri hluta fjárlaganefndar. Það var gert inni á nefndasviði Alþingis, inni í fjárlaganefndarherberginu. Þangað voru fjölmiðlamenn kallaðir. Hér er alvörumál á ferðinni og forseti getur ekki afgreitt það þannig að þetta hafi nú bara verið svona kynning á einhverju skjali sem væri til umfjöllunar í nefndinni. Og þegar síðan hefur komið í ljós að formaður nefndarinnar skrifaði um það sérstaka tölvupósta þar sem hann gætti sín á því (Forseti hringir.) að aðalviðfang skýrslunnar, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, skyldi nú alls ekki fá að sjá þetta skjal á vinnslustigi. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Hér hefur þingið verið misnotað. (Forseti hringir.) Ég er ánægð að heyra að forseti (Forseti hringir.) er sama sinnis.