145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Hæstv. forseti. Nú hefur forseti Alþingis endanlega huslað þessa „skýrslu“ sem svo er kölluð og í ljós hefur komið að er ekki skýrsla. Það má segja að grafstæðið hafi verið tekið fyrir ári síðan þegar hv. þm. Brynjar Níelsson, úr allt öðrum flokki en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem er borinn þungum sökum, fór yfir þetta sama mál og komst að allt annarri niðurstöðu en menn komast að í „skýrslunni“ sem kennd er við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur.

Það sem er allra verst í þessu er að vammlausir embættismenn sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér eru bornir þungum sökum sem stappa landráðum næst. Þeir segja sjálfir að þetta séu svívirðingar, ærumeiðingar, meiðyrði.

En ég vil bera blak af hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni af því leyti að hann hefur beðist afsökunar á orðalaginu. En það eru fleiri þingmenn sem eru ábyrgir fyrir þessari „skýrslu“, þar á meðal einn af varaforsetum þingsins. Er ekki kominn tími til (Forseti hringir.) að þessir fjórir þingmenn biðjist líka afsökunar (Forseti hringir.)á orðalagi um vammlausa embættismenn (Forseti hringir.) úti í borg sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér?