145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get eiginlega ekki orða bundist. Það átti aldrei að ásaka vammlausa embættismenn úti í bæ um nokkurn skapaðan hlut. Bíddu, fyrirgefið þið, datt þetta óvart inn í skýrsluna? Með leyfi forseta:

„Skýrslan sýnir að samningagerðin gekk alfarið út á að friðþægja kröfuhafana með því að afhenda þeim eignarhald á bönkunum …“

Datt þetta algjörlega óvart inn í skýrsluna? Með leyfi forseta:

„Samningamenn fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans afhentu kröfuhöfunum eignir á silfurfati …“

Hvurs lags orðalag er þetta eiginlega? Datt þetta af himnum ofan?

Virðulegi forseti. Er það eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson segir, að honum hafi hreinlega ekki verið sjálfrátt þegar skýrslan var skrifuð? Hér eru ásakanir á ásakanir ofan á blaðsíðu eftir blaðsíðu á hendur fólki sem hann segir að hafi ekki átt að ásaka um nokkurn skapaðan hlut.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Þessir þingmenn eiga að viðurkenna það að andúð þeirra á (Forseti hringir.) hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni hafi hér farið algjörlega yfir strikið (Forseti hringir.) og tekið allt of marga með sér. (Forseti hringir.) Viðurkennið það bara og að þessi reyfari sem var kynntur sé marklaust (Forseti hringir.) plagg. Ég óska eftir því (Forseti hringir.) að aðrir þeir sem sitja (Forseti hringir.) í nefndinni og eru skrifaðir fyrir þessu, hv. þm. (Forseti hringir.) Valgerður Gunnarsdóttir, (Forseti hringir.) Haraldur Benediktsson, (Forseti hringir.) og Páll Jóhann Pálsson, biðjist líka velvirðingar.