145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:28]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta skipta mjög miklu máli eins og hér hefur komið fram að við fáum alveg á hreint hver sé meiri hluti fjárlaganefndar í þessu máli. Ég skildi ekki hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur þegar hún kom í ræðustól. Er hv. þingmaður á þessu máli með meiri hlutanum eða ekki? Þetta er ein af þeim spurningum sem við í minni hlutanum höfum lagt fram. Ég er rétt eins og aðrir mjög hneyksluð á því að fjárlaganefnd sé notuð í þessum tilgangi. Við höfum ákveðna leiðir til að rannsaka mál. Ef við viljum rannsaka mál getum við sett það í ákveðið ferli. En það getur ekki verið leiðin að hinir og þessir þingmenn taki sig saman og rusli upp einni skýrslu. Við hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir gætum skrifað margar skýrslurnar og haldið marga blaðamannafundina. Er það þannig sem við ætlum að vinna hérna í þinginu? Ég held ekki.