145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

framtíðarskipan lífeyrismála.

[16:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nú er komin fram sameiginleg niðurstaða stéttarfélaga, ríkis og sveitarfélaga um framtíðarskipan lífeyrismála í landinu. Þetta er árangur af víðtæku samstarfi og nú verður Alþingi að taka málið til umfjöllunar og skoða frá öllum hliðum. Lengi hefur verið rætt um þær hindranir sem felast í óbreyttu ástandi, bæði fyrir einstaklinga og eins fyrir ríkissjóð og skuldbindingar opinberra aðila. Í því fælist mikill kostnaður fyrir komandi kynslóðir ef ekki yrði brugðist við. Þess vegna var í stöðugleikasáttmálanum sem gerður var árið 2009 samkomulag um að ríkisstjórn, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins tækju í sameiningu lífeyrismálin til umfjöllunar og mótuðu framtíðarsýnina. Í kjölfarið var skipaður vinnuhópur sem varð sammála um þá framtíðarsýn að samræma og jafna réttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði, að kerfið yrði sjálfbært með aldurstengdri ávinnslu réttinda og samræmdum lífeyrisaldri. Þá tók við sáttagjörð um lausn á vanda opinberu sjóðanna og áhrif á þá sem hafa nú þegar áunnið sér réttindi í núverandi kerfi.

Í þessu máli þarf að huga að hagsmunum bæði þeirra sem nú þegar greiða í kerfið og ungu kynslóðarinnar, framtíðarstarfsmannanna. Samkomulagið tekur á málum núverandi sjóðfélaga, en ég vil spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvernig réttindi og hagur næstu kynslóða hafi verið tryggð.