145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

fjármunir sem fóru í skuldaniðurfellinguna.

[16:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er augljóst öllum þeim sem kynna sér skuldaþróun heimilanna á Íslandi og bera saman við önnur lönd að við skörum fram úr. Okkur hefur tekist að koma skuldum heimilanna niður á stað sem er svipaður og átti við fyrir aldamótin síðustu. Engin Norðurlandaþjóðanna nær viðlíka árangri, skuldastaða heimilanna er orðin sérstakt efnahagslegt vandamál í löndunum víða í kringum okkur. Þess vegna er ég sérstaklega ánægður með þann mikla árangur sem þessi ríkisstjórn hefur náð sem í sjálfu sér var ekki færður með leiðréttingaraðgerðinni einni og sér, heldur hjálpaði það til ásamt með öðru sem gert hefur verið, með því að halda verðlagi lágu, með því að skapa skilyrði fyrir launahækkanir sem skiluðu kaupmætti og þar með höfum við lyft undir með fasteignamarkaðnum. Með því að hér hefur verið hagvöxtur hafa allir þessir hlutir hjálpast að. Skuldastaðan er allt önnur og betri en hún var í upphafi árs 2013 og í aðdraganda kosninganna sem fóru fram þá um vorið.

Við hv. þingmaður getum í sjálfu sér verið ósammála um það hvort þarna hafi verið um raunverulegt vandamál að ræða eða ekki. Í mínum huga var augljóst að skuldastaða heimilanna — það sást á allri hegðun heimilanna í landinu að það hafði þrengst svo mjög að þeim vegna hærri skulda og stöðnunar sem hafði orðið að ýmsu öðru leyti að það varð við að bregðast. Þetta voru einskiptisaðgerðir. Þetta voru fjármunir sem fóru frá ríkissjóði til heimilanna í landinu, réttu stöðu þeirra og hafa gjörbreytt stöðunni til hins betra.