145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

breyting á lífeyrissjóðakerfinu.

[16:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í dag var kynning á mjög viðamiklum breytingum á lífeyrissjóðakerfinu þar sem verið er að jafna þetta kerfi á milli opinberra starfsmanna og annarra. Ég hef reynt að kynna mér málið, hef setið á tveimur fundum með aðilum úr fjármálaráðuneytinu og verð að viðurkenna að ég hef svolitlar áhyggjur af því að það eigi að fara í gegn á þessu þingi.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki væri betra verklag, fyrst þetta er mál sem mér skilst að flestir flokkar sem hafa einhverja sögu í íslenskum stjórnmálum styðji, að málið fengi eðlilega þinglega meðferð þannig að hægt væri að fá umsagnir um það og athuga hvort einhverjir agnúar væru á því út frá því sem kemur þá væntanlega í umsögnum. Það er þannig með öll þingmál sem koma hingað inn að þau þurfa breytingar. Ég er ekki með þessa fyrirspurn til að reyna að bregða fæti fyrir málið, þvert á móti finnst mér mjög mikilvægt að geta verið algjörlega fullviss um að ekki sé verið að skerða réttindi og að þetta sé með sanni þannig að þetta komi vel út fyrir alla, líka þá sem eru að koma nýir inn í kerfið. Mig langar að heyra álit hæstv. fjármálaráðherra á því hvort hann hafi væntingar um að þetta verði klárað á einni viku.