145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

gjaldtaka af ferðamönnum.

[17:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Gjaldtaka af ferðamönnum hefur verið óttalegt vandræðabarn og stjórnmálunum raunar til vansa að hafa ekki getað tekið á því máli um árabil. Það vekur þess vegna óskipta athygli að sérfræðinefnd um skattamál kemst að sameiginlegri tillögu um að í þessum efnum eigi að hækka gistináttagjaldið, láta hluta af því renna til sveitarfélaganna og gera nokkrar breytingar til að einfalda gistináttagjaldið. Þetta er á vegum samstarfsvettvangs um aukna hagsæld sem flestir helstu aðilar í íslensku samfélagi eiga aðild að. Ég hef hvatt til þess að úr því að flest helstu samtök í þessu samfélagi geta skipað nefnd sem kemst að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig sé best að haga gjaldtöku af ferðamönnum eigum við í þinginu að setja niður flokkspólitískar deilur um einstakar útfærslur eða einstök sjónarmið og taka einfaldlega þær tillögur sem m.a. aðilar vinnumarkaðarins koma allir að og gera að okkar, afgreiða í þinginu og gera að lokum að lögum fyrir þinglok þannig að við fáum gjaldtöku á ferðamenn og fjármuni til nauðsynlegrar uppbyggingar.

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, hefur lýst því yfir að hann sé fyrir sitt leyti tilbúinn að beita sér fyrir því að hér myndist þverpólitísk sátt um að hækka gistináttagjaldið og láta það með þessum hætti renna til þessara verkefna.

Ég spyr ráðherra málaflokksins hvort hún sé tilbúin til þess að standa að slíkri þverpólitískri sátt um þá gjaldtöku sem nauðsynleg er og allir vita að þarf að fara í af ferðamönnum hér á landi og þessi sameiginlega sérfræðinefnd á vegum vettvangsins um aukna hagsæld á Íslandi (Forseti hringir.) hefur gert að tillögu sinni.