145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

gjaldtaka af ferðamönnum.

[17:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Allir vita að við þurfum að auka gjaldtöku af ferðamönnunum. Allir vita að okkur vantar fjármuni til nauðsynlegrar uppbyggingar. Nú kemst nefnd að sameiginlegri niðurstöðu fyrir hönd fjölmargra hagsmunasamtaka í íslensku samfélagi um að rétt sé að hækka gistináttagjaldið. Á ég að trúa því að það standi á ráðherranum þegar vettvangur um aukna hagsæld sem flestir helstu aðilar í íslensku samfélagi, m.a. aðilar vinnumarkaðarins, atvinnurekendur og verkalýðshreyfing, standa að ásamt með stjórnmálaflokkunum, kemst að sameiginlegri niðurstöðu um hvaða leið sé best og skynsamlegast að fara? Ætlar þá ráðherra málaflokksins að standa gegn slíkum tillögum? Er enginn vilji til þess að skapa samstöðu eða taka því fagnandi þegar samstaða tekst í þessum málum eins og þarna hefur gerst, fagna því einfaldlega að góð samstaða hafi tekist, fagna tillögum sérfræðinga um bestu mögulegu útfærsluna (Forseti hringir.) og gera hana einfaldlega að sinni? Þarf alltaf að láta sérskoðanir þvælast fyrir framförum í þessu efni?