145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef á fyrri stigum þessa máls tjáð mig með sterkum hætti um einstök atriði sem varða þetta frumvarp. Á sínum tíma fann ég mjög sterklega að því að ekki var gert ráð fyrir að með einhverju móti yrði skotið loku fyrir það að sagan gæti endurtekið sig varðandi hleranir framkvæmdarvaldsins á pólitískum andstæðingum sínum. Ég rifjaði hér upp söguna í þessum efnum. Viti menn, í umræðum fékk þetta góðan hljómgrunn hjá t.d. hæstv. innanríkisráðherra og ýmsum þeim sem véla um þetta frumvarp í tveimur nefndum. Þegar málið kom síðan til 2. umr. hafði allsherjar- og menntamálanefnd sent málið til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Sú nefnd er heldur betur að sanna tilvistarrétt sinn í ýmsum málum, ekki bara því sem hér um ræðir heldur líka öðru máli sem við ræðum væntanlega á morgun og varðar allt annað, framsal ríkisvalds.

Í umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var tekið undir ýmsar breytingar á frumvarpinu sem mér þóttu minni háttar. Það sem gladdi mig sérstaklega var að í áliti nefndarinnar var tekið undir þann málflutning sem ég hafði hér uppi og nefndin taldi nauðsynlegt að kannað yrði með hvaða hætti mætti gera aðhald og eftirlit með lögreglunni markvissara í framtíðinni og sömuleiðis með hvaða hætti mætti taka á því máli sem ég hafði gert að umræðuefni. Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd benti sérstaklega á mikilvægi þess að þingið kæmi að því með einhverjum hætti. Svo er í mörgum grannlöndum okkar og reyndar mörgum, ef ekki flestum, löndum Vestur-Evrópu. Ég tel mjög brýnt að taka upp einhvers konar aðhald af því tagi sem kemur í veg fyrir það að í framtíðinni geti sagan endurtekið sig og að handhafar framkvæmdarvalds láti fylgjast með eða hlera pólitíska andstæðinga sína.

Ég rifja upp ýmis dæmi eins og þegar sími fyrrverandi formanns Alþýðuflokksins, Hannibals Valdimarssonar, var hleraður. Hann var þá forseti ASÍ. Og hvert var tilefnið? Jú, tilefnið var að fyrir dyrum stóðu fjölmenn mótmæli vegna samninga sem þáverandi ríkisstjórn var að gera um landhelgismálið. Svona má aldrei endurtaka sig. Þess vegna gladdi það mitt aldna hjarta að sjá að í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var tekið mjög undir þetta. Þar var sömuleiðis lagt til sérstakt bráðabirgðaákvæði þar sem gert er ráð fyrir því að fram fari úttekt þar sem menn hafi þessi sjónarmið að leiðarljósi og þar er í gadda slegin sú skoðun nefndarinnar að þingið eigi að koma að bæði úttektinni og eftirlitinu. Nefndin nefndi sérstaklega að það væri óvitlaust að til slíks verks yrðu kvaddir einstaklingar hvor af sínum væng stjórnmálanna. Það má líta svo á að það sé partur af temprun valds innan okkar stjórnkerfis.

Ég verð hins vegar að segja að mér finnst sjálft ákvæðið sem er til bráðabirgða og allsherjar- og menntamálanefnd tekur upp í sinni tillögu heldur mélkisulegt. Mér finnst það ekki í fullu samræmi við þann góða og einbeitta vilja sem birtist í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Þegar sú umræða fór fram átti ég þess ekki kost að eiga orðastað við formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og mig langar þess vegna að beina til hans spurningu: Hvernig sér hann fyrir sér að þessi úttekt verði gerð? Hverjir eiga að koma að henni og með hvaða hætti á aðkoma þingsins að vera?