145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:17]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðuna, tek undir þær áherslur sem þar komu fram og þakka fyrir það hvernig hann hefur að undanförnu og á opinberum vettvangi minnt okkur á hleranir sem hér voru framkvæmdar af hálfu lögreglu í pólitískum tilgangi. Hann hefur nefnt einstaklinga sem stóðu framarlega í stjórnmálum og í verkalýðsbaráttu og sættu hlerunum á sínum tíma. Hann minnir okkur á mikilvægi þess að veita löggæslunni mjög strangt aðhald í þessu efni.

Þessu máli var skotið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til umfjöllunar og athugunar á því hvort öll þau ákvæði sem hér var að finna stæðust stjórnarskrá og lög og reglur sem við höfum sett til verndar einstaklingum. Við lögðum það til að sett yrði ákvæði til bráðabirgða inn í lögin til að tryggja að rannsóknarvinna færi fram um þetta efni.

Eins og við leggjum áherslu á tilgreinum við í smáatriðum hvaða atriði það eru sem þarf að hafa til hliðsjónar í slíkri rannsóknarvinnu, en við leggjum jafnframt áherslu á að Alþingi komi að málinu stig af stigi enda sé ég fyrir mér að í framtíðinni verði eftirlitið undir forræði Alþingis sem síðan gæti kallað til starfa sérfræðinga og kunnáttufólk á þessu sviði.

Ég hef beðið um orðið hér á eftir til að fara nánar (Forseti hringir.) í þessi mál, en hv. þingmaður vekur athygli á mjög mikilvægum þætti þessa máls og ég legg áherslu á að þessi vinna fari fram.