145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er eins viss og ég get orðið um að hér sé verið að þrengja heimildina. Hvað varðar 206. gr. og 210. gr. almennra hegningarlaga, sem eru nefndar, get ég enga ríka almanna- eða einkahagsmuni ímyndað mér af 210. gr. Með 206. gr. er aðeins öðruvísi farið. Henni er a.m.k. ætlað að takast á við mansal sem ég mundi segja að varðaði mjög ríka einkahagsmuni og mjög ríka almannahagsmuni.

Við höfum ekki tíma í þessu stutta spjalli til að ræða hvort 206. gr. sé rétta leiðin til að uppræta mansal. Mér finnst það vera önnur umræða í raun og veru, (Gripið fram í.) allt annað umræðuefni. Spurningin er réttmæt og það er mikilvægt að velta þessu fyrir sér vegna þess að ef það er ekki augljóst er það vandamál.

Hitt verð ég að segja, að ég er sannfærður um að þetta er þrenging. Það er lykilatriði í þessu frumvarpi, í raun og veru það sem gerir þetta að þrengingu og það helsta sem gerir það, að þarna er orðinu „eða“ breytt í „og“. Í fyrri rannsóknum á brotum var talað um það sem varðar átta ára fangelsi eða ríka almanna- eða einkahagsmuni og þetta hefur verið túlkað alveg afskaplega vítt vegna þess að fyrirbærið ríka almanna- eða einkahagsmuni er hægt að túlka mjög auðveldlega mjög vítt. Það sést þegar maður spyr hversu oft hlerunarbeiðnir eru samþykktar því að þá kemur í ljós að það er í 99,31% tilfella.

Ég sé ekki alveg hvernig við gætum víkkað þetta öllu meira út. Jafnvel þótt það sé eitthvert smáslys hérna inni sé ég ekki hvernig það gæti orðið öllu verra en það er. Sjálfsagt er það mögulegt. Hv. þingmaður veit það sjálfsagt betur en ég þar sem hann hefur reynslu úr dómskerfinu.

Eftir að hafa ígrundað málið þó nokkuð mikið tel ég þó útilokað að þetta sé til að víkka heimildir sem eru til staðar.