145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Því ber að fagna að reynt sé að tryggja á einhvern hátt friðhelgi einkalífs. Það er samt svo að við lifum á tímum þar sem ekki virðist vera skilningur á því hjá þeim sem koma inn á Alþingi með þingmál að friðhelgi einkalífs er stjórnarskrárvarinn réttur, að friðhelgi einkalífs er mikilvæg lýðræðinu, því að endalaust streymir inn á Alþingi texti sem á að verða að lögum þar sem reynt er að fara fram hjá ákvörðun Alþingis um að hér eigi ekki að vera forvirkar rannsóknarheimildir, að hér eigi ekki að draga fram upplýsingar um einstaklinga af því bara að það er svo auðvelt. Ef ekki væri fyrir Pírata hefði ansi margt verið gert að lögum þar sem mjög langt væri farið inn í friðhelgina. Mér finnst það mjög alvarlegt mál. Það má ekki vera þannig að ekki aðrir þingmenn en píratar skilji mikilvægi þess að friðhelgi sé í hávegum höfð í lagasetningu, hvort sem hún stafræn eða í raunheimum því að þessir heimar eru ekki aðskildir.

Ég fagna því þó að við séum að reyna að finna einhverjar leiðir til að hafa taumhald á þessum gríðarlega mikla freistnivanda. Margir virðast ekki átta sig á því hversu mikil inngrip þetta eru í friðhelgina og hvernig farið er á svig við grundvallarmannréttindin.

Ég fagna því að beðið hafi verið um og fengið álit hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Eftir að nefndin tók málið til umfjöllunar var komið með mjög miklar tillögur að breytingum á frumvarpinu þannig að það er með sanni mun betra en það leit út þegar það kom til kasta þingsins.

Það tókst með herkjum að ná því í gegn að það yrði viðurkennt að stafræn gögn, svokölluð „metadata“ eða algögn, væru jafn mikið inngrip í friðhelgina og að hlusta á símtöl. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga. Mér finnst mjög mikilvægt að það hafi fengist í gegn og ég þakka hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og síðan hv. allsherjarnefnd fyrir að taka þetta inn sem skilgreiningu á hlerunum. Þar að lútandi er verið að stíga nokkuð stórt skref.

Mig langar til að ítreka að eftirliti og aðhaldi með störfum lögreglu, þegar kemur að öflun og meðferð fjarskiptaupplýsinga við símahlustun og upptöku á hljóðum og merkjum og ljósmyndum, þarf að koma á með fulltingi fulltrúa Alþingis. Það sem er enn betra við þetta er að hér er talað um að nauðsynlegt sé að þeir sem hafa þekkingu á tæknimálum séu fengnir til ráðgjafar.

Í greinargerð með þessu frumvarpi er fjallað um eftirlitshlutverk Alþingis og margir þingmenn virðast því miður ekki fá tækifæri til að kynna sér þær ályktanir sem Alþingi tekur þátt í að samþykkja, hvort heldur er hjá Evrópuráðinu eða Alþjóðaþingmannasambandinu, en sá ágæti vettvangur alþjóðastarfs þingmanna Íslendinga hefur samþykkt mjög mikilvægar ályktanir í þessum málaflokki.

Ykkur til glöggvunar, þannig að það sé í samhengi við þetta tiltekna frumvarp, ætla ég að lesa upp úr 25 punkta aðgerðaáætlun til að tryggja lýðræði á stafrænum tímum með sérstakan fókus á þær ógnir sem stafa að friðhelgi einkalífs og persónufrelsis.

Í 9. lið ályktunar sem samþykkt var einróma hjá Alþjóðaþingmannasambandinu kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Skorar á þjóðþing að lögleiða ítarlega löggjöf um gagnavernd, bæði fyrir opinbera geirann og einkageirann, sem kveður að lágmarki á um ströng skilyrði varðandi heimild til að hlera, safna, greina og varðveita gögn, um skýr og afgerandi mörk um notkun hleraðra og safnaðra gagna og um öryggisráðstafanir sem tryggja öruggustu varðveisluna, nafnleynd og rétta og varanlega eyðingu gagna; og mælir með að komið verði á óháðum og skilvirkum gagnaverndarstofnunum á landsvísu sem hafa nauðsynlegt vald til að endurskoða starfshætti og meðhöndla kvartanir, en hvetur um leið þjóðþing til að tryggja að lagarammi landsins um gagnavernd sé í fullu samræmi við alþjóðalög og viðmið um mannréttindi og gæti þess að sömu réttindi gildi bæði utan nets og á neti.“

10. liður:

„Skorar einnig á þjóðþing að tryggja með lögum að allt samstarf varðandi eftirlitsáætlanir á milli stjórnvalda og fyrirtækja, lögaðila og allra annarra samtaka sé háð eftirliti þingsins, svo fremi að það tálmi ekki rannsóknum á saknæmu athæfi.“

12. liður:

„Hvetur þjóðþing til að hafna hlerun fjarskipta og njósnastarfsemi af hálfu ríkis eða annars aðila sem á þátt í aðgerðum sem hafa neikvæð áhrif á heimsfrið og öryggi, sem og borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, einkum þau sem felast í 12. grein alþjóðamannréttindayfirlýsingarinnar og 17. grein alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þar sem kemur fram að „enginn skal þurfa að þola geðþótta- eða ólögmæta röskun á friðhelgi einkalífs, fjölskyldu, heimili eða bréfaskiptum“ og að „allir eiga rétt á lagalegri vernd gegn slíkri röskun eða árásum“.“

13. liður:

„Viðurkennir þörf fyrir að þjóðþing tilgreini ítarlega aðstæður þar sem heimila má röskun á réttinum til friðhelgi einkalífs, setji strangar réttarfarsreglur um heimild til eftirlits með samskiptum og fylgist með framkvæmd þessara réttarfarsreglna, afmarki lengd eftirlits, öryggi og varðveislu gagna og öryggisráðstafanir varðandi misnotkun.“

14. liður:

„Leggur áherslu á að þó röksemdir um þjóðaröryggi feli undantekningalaust í sér að ýmis stafræn tækni kunni að ógna öryggi og velferð ríkis, þurfi þjóðþing að endurskoða bærni þeirra til að hafa eftirlit með öllum aðgerðum framkvæmdarvaldsins og tryggja að jafnvægis verði gætt á milli þjóðaröryggis og einstaklingsfrelsis til að tryggja að ráðstafanir í nafni þjóðaröryggis og gegn hryðjuverkum séu í samræmi við mannréttindi og forðist allar ógnanir við lýðræði og mannréttindi.“

15. liður:

„Hvetur þjóðþing eindregið til þess að endurskoða og koma á skilvirku, óháðu og hlutlausu eftirliti þar sem þörf krefur og hafa það innan löggjafarinnar; leggur áherslu á að þjóðþing verði að rannsaka alla galla á eftirliti sínu og ástæður þeirra, ganga úr skugga um að eftirlitsaðilar eins og þingnefndir og umboðsmenn þings hafi nægileg úrræði, réttar heimildir og nauðsynlegt vald til að endurskoða og birta opinberlega skýrslur um starfsemi ríkisstofnana og/eða eftirlitsstofnana sem starfa í umboði þeirra, þar á meðal aðgerðir í samstarfi við erlenda aðila með upplýsingamiðlun eða sameiginlegar aðgerðir.“

Ástæðan fyrir að ég rifja þetta upp er sú að ég er enn að bíða eftir skýrslu frá hæstv. innanríkisráðherra um það hvar við stöndum varðandi þessa ferla. Ég tel mjög brýnt að eftirlit sé með þessum heimildum lögreglu og að það sé óháð því að lögregla hefur getað fengið heimildir til að fá aðgengi að mjög persónulegum upplýsingum og gögnum varðandi samskipti í meira en 99% tilfella. Það finnst mér mjög alvarlegt. Þess vegna fagna ég því að við séum að stíga þetta skref en við þurfum að hafa miklu hraðari hendur því að friðhelgi einkalífs er verulega ógnað og ef við höfum ekki friðhelgi einkalífs getum við ekki búið í heilbrigðu lýðræðisríki. Það er bara þannig. Það geta komið upp tilfelli eins og núna eftir hrun, þá var farið mjög skarpt og djúpt inn í friðhelgi ákveðinna þjóðfélagshópa. Við þurfum alltaf að fara mjög varlega með svona heimildir, hvernig þeim er beitt, alveg óháð því hvaða þjóðfélagshópar það eru.

Ég hvet þingið til að vera áfram vakandi yfir þeim þingmálum sem koma hingað inn og fela ítrekað í sér tillögur um bæði forvirkar rannsóknarheimildir og heimildir til að safna gögnum sem eru ekki í samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.