145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[18:32]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í örfáum orðum langar mig að fagna því að við séum að ganga til atkvæða um fullgildingu á Parísarsamkomulaginu. Það var mikill heiður að fá að vera viðstödd þessa daga, bæði úti í París og síðan að skrifa undir samninginn í New York. Ég er alveg sannfærð um að þetta mun leiða til betri hugsunar varðandi umhverfismál í heild sinni. Daglegt líf okkar verður að taka mið af því sem við erum að samþykkja hér. Við þurfum öll að endurskoða áform okkar og hvernig við lifum.

Maður hefur fundið þann árangur sem þegar hefur orðið. Fyrirtæki, bæði á Íslandi og um allan heim, eru farin að hugsa öðruvísi og sjá í þessu ákveðna nýsköpun. Við þurfum að breyta til.

Ný tækni þarf líka að koma til sögunnar til að við getum ráðið við þann vanda sem við stöndum öll frammi fyrir. Þetta er heimsógnun og við verðum öll að taka á málunum.