145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 97/2016 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn.

864. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/?2016 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn, þ.e. um opinber innkaup.

Þetta nefndarálit kemur frá utanríkismálanefnd sem hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá utanríkisráðuneyti og fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2016, frá 29. apríl 2016, um breytingu á XVI. viðauka um opinber innkaup frá 2. maí 1992, og að fella inn í samninginn þrjár tilskipanir á sviði opinberra innkaupa, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/23/ESB frá 26. febrúar 2014 um gerð sérleyfissamninga, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/24/ESB frá 26. febrúar 2014 um opinber innkaup og niðurfellingu tilskipunar 2004/18/EB, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/25/ESB frá 26. febrúar 2014 um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu og um niðurfellingu tilskipunar 2004/17/EB.

Helsta markmiðið með tilskipunum 2014/24/ESB og 2014/25/ESB er að tryggja gagnsæi og jafnt aðgengi og auka samkeppni um opinbera samninga á Evrópska efnahagssvæðinu. Markmiðið með tilskipun 2014/23/ESB er að koma á heildstæðum reglum um sérleyfissamninga þar sem slíkir samningar eru skilgreindir með skýrum og nákvæmum hætti vegna erfiðleika sem upp hafa komið við að greina á milli sérleyfissamninga og annarra opinberra innkaupa.

Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að innleiðing gerðanna þriggja kalli á heildarendurskoðun núgildandi löggjafar um opinber innkaup. Fjármála- og efnahagsráðherra hafi nú þegar lagt fram frumvarp til nýrra laga um opinber innkaup sem fela í sér innleiðingu á tilskipununum þremur, þ.e. mál nr. 665 á yfirstandandi löggjafarþingi, og hefur það verið til umfjöllunar í fjárlaganefnd frá því í maí síðastliðnum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fór þess á leit við nefndina í júlí að stjórnskipulegum fyrirvara yrði aflétt með lagaákvæði líkt og heimilt er samkvæmt reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála.

Meginreglan er sú að stjórnskipulegum fyrirvara af ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar verði aflétt með ályktun Alþingis og að utanríkisráðherra leggi tillögu um slíka þingsályktun fram. Nefndin áréttar að stjórnskipulegum fyrirvara hefur ekki verið aflétt með lagaákvæði í fjölda ára enda hafi breytingar verið gerðar á framangreindum reglum árið 2010 sem ætlað var að tryggja samræmda framkvæmd við mál sem þessi og meiri yfirsýn utanríkismálanefndar. Mikilvægt er að þingið taki skýra afstöðu til þess hverju sinni hvort aflétta eigi stjórnskipulegum fyrirvara Evrópugerða og því brýnt að sérstök tillaga þess efnis fái ávallt þinglega meðferð. (ÖS: Heyr, heyr.) — Svo mælti hv. þm. Össur Skarphéðinsson. (ÖS: Að gefnu tilefni.)

Nefndin leggur til að málið verði samþykkt óbreytt. Hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, Óttarr Proppé og Silja Dögg Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Hv. þm. Óttarr Proppé skrifar undir álit þetta með heimild samkvæmt 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, Vilhjálmur Bjarnason, framsögumaður þessa máls, Karl Garðarsson, Elín Hirst, Óttarr Proppé, með fyrirvara, Steinunn Þóra Árnadóttir og Össur Skarphéðinsson.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta mál sé býsna einfalt og minni á það sem fram kom fyrir nefndinni að þetta mun ekki hafa kostnaðarauka í för með sér heldur þvert á móti sparnað.