145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

tilkynning forsætisráðherra um þingrof og kosningar.

[13:42]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að þessi tillaga sé komin fram. Það að hún er komin fram eyðir þeirri óvissu sem hefur verið um það hvort og hvenær yrði kosið. Það er mjög óvenjuleg og sérstök staða í íslenskri pólitík og er búin að vera lengi. Allt þetta ár hefur íslensk pólitík verið í óvissu, almenningur hefur verið í óvissu um það hvað væri að gerast, hver væri að stjórna, hvort það yrði kosið og þá hvenær. Það er í rauninni ekki fyrr en við fáum forsetabréf á Alþingi sem sá efi er endanlega settur niður.

Við erum að flýta kosningum vegna þess að hér varð trúnaðarbrestur stjórnvalda, hæstv. þáverandi forsætisráðherra, í vor. Við erum búin að vera með íslensk stjórnmál í spennitreyju óvissunnar í marga mánuði síðan þar sem öll umræða virðist fjalla meira um einstaklinga og stöðu þeirra í pólitíkinni en um málefni almennings og það sem stjórnmálin eiga að fjalla um. Þessi óvissa hefur tekið pláss frá umræðu um það sem skiptir almannahagsmuni máli.

Þess vegna er það sérstakt fagnaðarefni að við séum komin með dagsetningu á kosningar — við hefðum auðvitað viljað kjósa strax í vor eins og við stjórnarandstöðuflokkarnir lögðum til en var fellt á Alþingi — þannig að þessi efi sé á burtu og hægt að snúa sér að því sem skiptir máli í stjórnmálum, að ræða um málefni, fara í kosningabaráttu þar sem málefnin skipta meira máli en menn, þar sem flokkarnir leggja sitt fram og þar sem við getum hent okkur í verkin og unnið þau almennilega. Þessi stjórnlitla, afkastalitla ríkisstjórn hefur sett mörg mjög mikilvæg mál fram á lokametrunum og ég vara við fúski í þeirri vinnu. Við vitum að heimurinn mun hvorki enda né byrja 29. október í kosningum. Lífið mun halda áfram, mikilvæg mál í stjórnmálunum munu halda áfram. Ég fagna því að við höldum áfram störfum um sinn og vinnum eins og við getum en forðumst fúsk og ef við getum ekki klárað mál eigum við að taka þau fram yfir kosningar. Það er ekkert hættulegt við það.