145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir komst ágætlega að orði hér áðan þar sem hún sagði að stjórnmál snerust um hugmyndafræði. Nú erum við að kveðja ríkisstjórn sem hefur haft hægri stefnu að sinni hugmyndafræði og bera verk hennar þess merki. Sem betur fer má segja að þessi ríkisstjórn hafi verið mjög verklaus og ekki haft þrek til að eyðileggja margt í velferðarkerfi okkar sem hún hefði getað gert. En hún hefur líka algerlega skilað auðu í allri innviðauppbyggingu í landinu. Þar sjáum við þess merki. Þau verk sem hún hefur unnið eru í þágu hinna ríku og hinna efnameiri.

Nú á síðustu metrunum eru heljarstór viðfangsefni komin til meðferðar á þinginu, eins og grundvallarbreytingar á almannatryggingakerfinu og grundvallarbreytingar á jöfnun lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna. Við fáum líka loksins samgönguáætlun í fangið. Samgöngur í landinu hafa ekki skipað háan sess hjá þessari ríkisstjórn hvað fjármögnun varðar en nú á síðustu metrunum fara menn að sýna á spilin og lofa bót og betrun varðandi það.

Menn tala um yfir 100 milljarða varðandi jöfnun lífeyrisréttinda, yfir 5 milljarða varðandi almannatryggingakerfið og yfir 11 milljarða varðandi samgöngumálin. Það er ekki beint trúverðugt eða góð vinnubrögð að koma með svona stóra málaflokka korteri fyrir kosningar. Auðvitað ætti þessi ríkisstjórn að láta þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir næstu kosningar taka við keflinu og vinna þau stóru verk sem hér liggja fyrir á síðustu metrunum. Við megum ekki láta þau verkefni gjalda þess að (Forseti hringir.) það eru að koma kosningar. Við eigum að vanda til verka og ekki að afgreiða einhver mál hér í flýti því að það kemur dagur eftir þennan dag og ríkisstjórn eftir þessa ríkisstjórn.