145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Er góðæri núna? Já, það er góðæri núna. Hvernig stendur á því ef það er góðæri núna að ekki séu til peningar fyrir nauðsynlegum lyfjum? Hvernig stendur á því að veikt gamalt fólk og langveikt fólk sem býr við örorku fær ekki þann stuðning sem það á rétt á í samfélaginu okkar? Hvernig stendur á því ef það er góðæri að það eru enn þá börn hér á Íslandi sem fara svöng að sofa? Eigum við þingmenn að gera eitthvað í því áður en við klárum þetta þing? Getum við gert eitthvað í því? Er það popúlismi að segja að við ætlum að gera eitthvað í því?

Mér finnst gríðarlega sárt að vita til þessarar stöðu þegar á Íslandi búa svo fáir og við eigum aðgengi og sameiginlega svo mikið af auðlindum, við erum svo rík og það er góðæri. Það er samt þannig að þegar síðasta góðæri var voru fjármunir ekki veittir til heilbrigðiskerfisins til þess að geta látið heilbrigðiskerfið halda áfram að vera fyrir alla, eins og tókst næstum því einhvern tímann, óháð því hverjir við vorum. Ég montaði mig oft af því við útlenska vini mína að ég fengi nákvæmlega sömu þjónustu, þótt ég væri fátæk einstæð móðir, og forseti lýðveldisins. En það er ekki raunin í dag. Það er búið að einkavæða og einkavæða og mola að innan kerfin okkar. Við megum ekki gleyma bræðrum og systrum okkar sem eiga (Forseti hringir.) minnst og þurfa á því að halda að við styðjum við þau. Við megum ekki gleyma þeim, forseti.


Efnisorð er vísa í ræðuna