145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[14:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessari umræðu og þakka líka málefnalega ræðu og ágæta yfirferð yfir það verkefni og þann vanda sem blasir hér við.

Fyrst vil ég segja að ég er sammála hv. þingmanni hvað varðar greininguna. Það er augljóst að nauðsynlegt er að grípa til aðgerða til að tryggja að sjálfstætt reknir fjölmiðlar hafi rekstrargrunn þannig að þeir geti sinnt öllum þeim mikilvægu verkefnum sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni. Ég held að það skipti svolitlu máli að skoða einmitt hvert umhverfið er í löndunum í kringum okkur. Það er áhugavert fyrir okkur að fyrir þremur árum síðan var gerð í Danmörku allsherjarúttekt á þróun og rekstrarumhverfi danskra fjölmiðla. Niðurstöðurnar þar voru sláandi. Danskir fjölmiðlar standa illa. Um 20% af heildarauglýsingatekjum í Danmörku fara til stórra fyrirtækja eins og Google og Facebook í Bandaríkjunum, til fyrirtækja sem skila ekki miklu inn í danska menningu. Í framhaldi af því breyttu dönsk stjórnvöld stefnu sinni um styrkveitingar. Það eru ekki til sambærilegar tölur frá Svíþjóð og Noregi en það má ætla að ekki sé ósvipuð staða þar uppi.

Í öðru lagi er rétt að hafa í huga að það eru víða beinir styrkir til fjölmiðla eins og hv. þingmaður nefndi. En af því að sérstaklega var hér rætt um virðisaukaskattsprósentuna langar mig að nefna að reynslan sýnir að virðisaukaskattsprósenta hefur mikið að segja um sölu og dreifingu fjölmiðla. Til dæmis er það svo að það eru ekki neinir beinir ríkisstyrkir í Bretlandi til einkarekinna fjölmiðla, eins og víða er reyndar í Evrópu, en dagblöð eru þar undanþegin virðisaukaskatti. Dagblöð í Noregi, Danmörku og Belgíu eru einnig undanþegin virðisaukaskatti og í Svíþjóð, Hollandi og Portúgal, svo dæmi séu tekin, er virðisaukaskattur á dagblöð 6%. 2,1% í Finnlandi, 2,5% í Sviss, 4% á Spáni og 7% í Þýskalandi og 5% í löndum eins og Möltu og Kýpur.

Á Íslandi var virðisaukaskatturinn 7% og er kominn í 11 og er það með einn sá hæsti sem þekkist á dagblöðum í Evrópu. Á sama tíma er hér einhver minnsti markaðurinn.

Norskir fréttamiðlar á netinu hafa verið undanþegnir virðisaukaskatti frá 1. mars 2016 og þar með sitja norskir vefmiðlar við sama borð og norskir prentmiðlar. Reyndar má nefna í framhjáhlaupi hvað þetta varðar að í Svíþjóð hefur verið ákveðið að verja 35 milljónum sænskra króna í ríkisstyrki til sænskra prentmiðla á næstu fimm árum í þeim tilgangi að styrkja við þróun þeirra á netinu. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta, þ.e. sérstaklega virðisaukaskattinn, er að hv. þingmaður gerði það að umræðuefni og spurði mig sérstaklega um afstöðu mína til þessa. Ég tel að lausnin á þeim vanda sem hv. þingmaður og ég erum sammála um liggi í það minnsta að hluta til í virðisaukaskattsprósentunni. Við þurfum að taka afstöðu til þess. En það er ekki nóg. Það þarf líka að uppfæra ýmislegt í íslensku regluverki í fjölmiðlalögunum þótt ekki sé langt síðan við samþykktum ný lög í þinginu sem við þurfum að breyta til að mæta þeim tækninýjungum sem hafa komið fram. Það er nauðsynlegt að löggjafinn fylgi þeim tækninýjungum sem best.

Ég kallaði til mín í sumar forustufólk ljósvakamiðlanna og átti með því fund í ráðuneytinu þar sem við fórum yfir rekstrarstöðu og rekstrarumhverfi þessara miðla. Ég get því tekið heils hugar undir þær áhyggjur sem hv. þingmaður lýsti í ræðu sinni. Ég hef líka átt samtöl við forsætisráðherra og fjármálaráðherra og líka einstaka þingmenn og forustufólk úr stjórnarandstöðu. Mín niðurstaða eftir þau samtöl er sú að það sé samhljómur um að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða fyrir fjölmiðlanna. Meðal annars þess vegna hef ég kynnt í ríkisstjórn og í mínum þingflokki þingsályktunartillögu sem ég vil bera upp og vonast til að geti farið í gegnum þingið um að settur verði á fót starfshópur á vegum þessa þings þar sem eigi aðild fulltrúar allra flokkanna og þeirra nýju flokka sem koma inn eftir næstu kosningar sem skili til menntamálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra eigi síðar en 15. febrúar á næsta ári úttekt og tillögum um til hvaða aðgerða, lagabreytinga, reglugerðarbreytinga og annars, er nauðsynlegt að grípa til þess að mæta þeirri þróun og þeirri stöðu sem uppi er og hv. þingmaður hefur gert að umtalsefni í þessari umræðu.