145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[14:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég vil fyrst geta þess í ljósi þess að hæstv. ráðherra sagði að tímabært væri að endurskoða fjölmiðlalögin að ég er mjög sammála hæstv. ráðherra, enda stóð það í bráðabirgðaákvæði laganna að þau skyldu endurskoðuð innan þriggja ára frá setningu þeirra, sem var einmitt árið 2011, þessi endurskoðun ætti því að vera farin af stað. Þar var í fyrsta sinn kannski reynt að ná heildstætt utan um fjölmiðlaumhverfið. Eins og hv. þingmenn muna voru fyrir þessi lög einungis í gildi sérstök lög um sjónvarp og útvarp annars vegar og hins vegar prentlög frá sjötta áratugnum. Þau skiptu miklu máli en það er löngu kominn tími á endurskoðun. Þar er verið að reyna að bregðast við þeim tæknibreytingum sem hafa orðið og skilgreina hlutverk fjölmiðla, sem er auðvitað allt annað en það sem við getum kallað hlutverk einmiðlanna, sem margir vilja þó kannski rugla saman, þ.e. annars vegar erum við með faglega rekna fjölmiðla með sjálfstæða ritstjórnarstefnu sem hafa skyldum að gegna við almenning, þeim skyldum að vera mikilvæg stoð í lýðræðissamfélagi, og hins vegar þessir óteljandi miðlar sem við notum, t.d. stjórnmálamenn, í formi Facebook-síðna og Twitter-síðna og annars slíks, þar sem við miðlum sýn okkar á umheiminn og geta ekki kallast faglegir fjölmiðlar. Það er mjög mikilvægt að við bregðumst við því að í tæknibreyttum heimi þar sem er gríðarlegt framboð af efni hefur rekstrarstaða þess sem við köllum faglega fjölmiðla versnað.

Ég lýsi mig reiðubúna hér til að ræða ýmsar leiðir, hvort sem það eru styrkveitingar til rannsóknarblaðamennsku, sem ég hefði talið mjög spennandi kost fyrir okkar litla samfélag, sérstaka skoðun á mikilvægi landshlutamiðla, hvort sem það eru prentmiðlar eða netmiðlar sem sinna sérstökum landshlutum sem við vitum að verða oft út undan í opinberri umræðu, og síðast en ekki síst skattalega umhverfið. Ég vil þá nefna að í efnahags- og viðskiptanefnd höfum við verið að ræða skattalega stöðu streymiþjónustu á Íslandi fyrir kvikmyndir, sjónvarpsefni og tónlist og höfum rætt þann möguleika að sú þjónusta verði færð í lægra þrep. Ég veit ekki hversu mikla skoðun þetta þarf, því að svo virðist að viðbrögð kerfisins séu alltaf að þetta sé allt í einhvers konar heildarendurskoðun. Ég veit ekki hversu mörg ár sú heildarendurskoðun gæti tekið (Forseti hringir.) en ég velti fyrir mér hvort við getum ekki skoðað þetta í samhengi við tillöguna sem liggur á borðum efnahags- og viðskiptanefndar, því að þetta er (Forseti hringir.) auðvitað líka mjög erfið staða fyrir innlenda streymiþjónustuveitendur.