145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[14:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að finna einhverja endanlega lausn á þeim vanda sem við ræðum hér vegna þess að auðvitað er þetta að stóru leyti afleiðing tækniframfara, sem verða fleiri í framtíðinni. Það eru hins vegar ekki einungis tækniframfarir í því að veita fréttir heldur líka í gjaldtöku og innheimtu. Eitt af því sem er að ryðja sér til rúms smátt og smátt inn á hina ýmsu markaði er lýðfjármögnun, eins og ég ætla að kalla það, t.d. Karolina Fund og patrio.com, sem eru að vísu ólík fyrirbæri. Patrio.com gengur út á það að maður fer inn á Youtube, eða hvar sem maður hefur aðgang að listamanninum, fréttamanninum eða umfjöllunarefninu sem maður hefur áhuga á, og styrkir viðkomandi um einhverja ákveðna upphæð á mánuði. Ef nógu margir taka þátt í því er hægt að afla tekna eftir þessum leiðum. Þetta er leið sem virkar fyrir marga. Gallarnir við að vera á Íslandi eru smæð markaðarins og blessuð íslenskan. Ég hygg nefnilega að við svona aðferðir, eins sniðugar og þær eru fyrir mjög marga, muni íslenskan alltaf þvælast fyrir vegna þess að það verður alltaf meiri hvati til að vinna efnið á ensku og búa það til á ensku vegna þess að það eru svo miklu stærri markaðir og miklu meiri tekjumöguleikar.

Ég kemst þess vegna að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir tækniframfarir á borð við patrio.com, Karolina Fund og það allt saman munum við, svo lengi sem við viljum halda í íslenskuna, alltaf þurfa að ríkisstyrkja málaflokka sem standa undir íslenskunni, þar á meðal er að sjálfsögðu fjölmiðlun.

Ég tek undir hugmyndir um að afnema virðisaukaskatt. Hvað varðar hugmyndir um styrkveitingar til rannsóknarblaðamennsku, eins og hv. 3. þm. Reykv. n. fór yfir rétt áðan, mundi ég samt hafa sömu áhyggjur og ég hef gagnvart ríkisstyrktum fjölmiðlum almennt vegna áhrifa stjórnmálamanna, sérstaklega þegar þau áhrif hafa verið jafn ljót og við höfum séð á þessu kjörtímabili. Það svarar ekki öllum spurningum en ég kemst að þeirri niðurstöðu að þetta þurfi að vera ríkisstyrkt og sambland tækniframfara í framhaldinu.