145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[14:47]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því sem kom fram hjá menntamálaráðherra í svari við óundirbúinni fyrirspurn hv. þm. Helga Hjörvars 8. september þar sem ráðherrann talaði um þverpólitískt samstarf um að bæta rekstrarskilyrði fjölmiðla í landinu og hann endurtók það áðan. Ég tek undir þau orð að þetta þverpólitíska samstarf eigi ekki bara að snúast um aðgerðir til að bæta rekstrarskilyrði einkarekinna fjölmiðla heldur þurfa þá að vera til umræðu aðgerðir sem ná til bæði einkarekinna og hinna almennu netmiðla, gömlu dagblaðanna og landshlutamiðla og svo að sjálfsögðu Ríkisútvarpsins.

Frjálsir fjölmiðlar eru lýðræðinu nauðsynlegir því að þeir veita aðhald með faglegri og upplýsandi umfjöllun og fréttaflutningi. Þess vegna ber stjórnvöldum að verja sjálfstæði þeirra og ritstjórnarlegt frelsi. Fjölmiðlar verða að hafa fjárhagslega burði til að sinna lýðræðishlutverki sínu og það er æskilegt að hið opinbera styðji við starfsemi þeirra án þess að vega að sjálfstæði þeirra með takmörkunum á fjárveitingum, hótunum eða annarri valdbeitingu.

Það hefur komið fram í máli útvarpsstjóra, eins og við höfum oft rætt hér áður, að ef útvarpsgjaldið rynni þangað óskert og hefði ekki verið skert dygði það til að brúa bilið yfir í það sem vantar.

Ég lagði fram tillögu 2014 sem snýr að svæðismiðlum sem gegna gríðarlega miklu hlutverki í lýðræðislegri umræðu á sínu svæði og dreifingu upplýsinga um málefni sem kunna að varða íbúa þess svæðis miklu en komast sjaldan að í stærri fjölmiðlum á landsvísu.

Sameining sveitarfélaga, með fjölgun íbúa og landfræðilega stærri sveitarfélögum, og samdráttur innan stærri fjölmiðla landsins hefur aukið mjög þörf íbúa fyrir svæðisbundna fjölmiðlun sem veitir í senn upplýsingar um verkefni stjórnvalda og er um leið vettvangur opinberrar umræðu um málefni hvers sveitarfélags.

Lokun svæðisútvarpa RÚV á sínum tíma hafði neikvæð áhrif á upplýsingagjöf og innri umræðu um samfélagsmál á þeim svæðum sem nutu útsendinga svæðisstöðvanna. Nú er sem betur fer verið að vinna að því að byggja (Forseti hringir.) það upp aftur. Við þurfum að efla miðlana um allt land, ekki bara horfa til stóru miðlanna á höfuðborgarsvæðinu.