145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[14:54]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Það er mikilvægt að horfa til þess að tvenns konar fjölmiðlun á sér stað á Íslandi, annars vegar er það Ríkisútvarpið sem er almannastofnun sem hefur mjög mikilvægu almannahagsmuna- og menningarlegu hlutverki að gegna, og hins vegar er það alls konar frjáls fjölmiðlun sem hefur sömuleiðis mjög miklu almannahagsmunahlutverki að gegna en er úti á markaðnum, ef svo má segja, með afkomu sína. Fjölmiðlar, eins og önnur menning, skipta mjög miklu máli fyrir þjóð. Fjölmiðlar skipta ekki minna máli fyrir íslenska tungu en íslenskar bækur. Sennilega er íslensk tunga nær okkur í gegnum fjölmiðlana en í gegnum önnur listform. Fjölmiðlarnir skipta líka mjög miklu máli fyrir lýðræðið. Það skiptir máli, ekki síst í litlu landi þar sem eru stuttar pípur og stutt á milli manna, stutt í hagsmuni, að þar séu fjölbreyttir og óháðir fjölmiðlar.

Auðvitað þurfum við að taka ábyrgð á þessu eins og öðru í íslensku samfélagi. Ef við upplifum það, sem við gerum vissulega, að fjölmiðlar eigi mjög undir högg að sækja rekstrarlega, eigi erfitt með að rækja hlutverk sín af kostgæfni, þurfum við að skoða umhverfi fjölmiðla. Það er full ástæða til að gera það t.d. með því að skoða skattalegt umhverfi þeirra.

Ef við erum að tala um að afleggja skatta af einhverjum er mikilvægt að við gerum það í leiðinni með því (Forseti hringir.) að skoða alla skattheimtu. Það er algjörlega ömurleg tilhugsun að við lækkum skatta á fjölmiðlafyrirtækjum á sama tíma og fólk getur haft fjármuni sína erlendis án þess að þeir séu skattlagðir á eðlilegan hátt.