145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[14:56]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Mér finnst þær mjög mikilvægar. Ef ekki hefði verið fyrir Panama-skjölin og þá miklu rannsóknarvinnu sem átti sér stað með samstilltu átaki rannsóknarblaðamanna úti um allan heim værum við ekki í þeirri stöðu núna að geta hjálpað ríkisstjórninni að leita eftir nýju umboði og ef ríkisstjórnin fær ekki það umboð er ærin ástæða fyrir því. Eitt það mikilvægasta sem pínulítið land og pínulítið samfélag þarf á að halda er öflugt fjórða vald. Því er mjög dapurlegt að við séum með þannig rekstrarumhverfi fyrir marga fjölmiðla, ef ekki alla, að skattbyrðarnar eru miklar og t.d. má RÚV ekki auglýsa á sínum vef en á sama tíma er ætlast til þess að fjölmiðillinn sé samkeppnishæfur varðandi fréttaefni.

Það var gríðarlega mikil gróska hjá fjölmiðlum á Íslandi í að búa til aðgengilega og flotta vefi en þeir eru einhvern veginn orðnir þannig að nánast ómögulegt er að ná sér í fréttaefni þar af því að þar er svo mikið kraðak og þeir fylgja ekki eftir þeim stöðlum sem maður sér hjá erlendum fjölmiðlum. Því tel ég brýnt að Ísland tryggi með sinn minnsta markað að þeir sem færast yfir í stafræna formið búi við þannig aðstæður að það sé í raun og veru rekstrarhæft.

Mikið skelfing vildi ég óska að maður hefði meiri tíma til að tala um þetta mikilvæga málefni.