145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[14:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka góða umræðu og lýsi ánægju minni með frumkvæði menntamálaráðherra til þess að koma á þverpólitísku samstarfi um að bæta rekstrarskilyrði fjölmiðla en vil um leið segja að nauðsynlegur þáttur í því er að bæta stöðu Ríkisútvarpsins, einkanlega með því að létta af Ríkisútvarpinu lífeyrisskuldbindingum. Ég fagna sérstaklega yfirlýsingu menntamálaráðherra um að létta virðisaukaskatti af íslenskum fjölmiðlum. Það er aðgerð sem munar um. Það er aðgerð sem er skynsamleg. Það er aðgerð sem er almenn. Miklu stærri markaðir, miklu fjölmennari ríki, miklu ríkari þjóðir leggja minni skatta og jafnvel enga á fjölmiðla. Við Íslendingar þurfum að fara að dæmi þeirra því að fjölmiðlar okkar eru að berjast við að halda úti rekstri á 300 þúsund manna málsvæði. Hér skiptist fjölmiðlun sannarlega í tvennt en hún skiptist í vaxandi mæli í fjölmiðlun á íslensku annars vegar og á ensku hins vegar. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að ef ekkert er að gert er það bara íslenskan sem lætur undan.

Þegar ég var formaður efnahags- og viðskiptanefndar á síðasta kjörtímabili stóðum við frammi fyrir svipuðum vanda með íslenska tónlist. Skattur á hana var miklum mun hærri en skattur á erlenda tónlist og tæknivæðing hafði veikt mjög samkeppnisstöðuna. Þá ákváðum við í þinginu að taka tónlistina úr 24% virðisaukaskatti niður í 7%. Það var aðgerð sem munaði um. Það var aðgerð sem var skynsamleg vegna þess að hún var almennt til að bæta rekstrarskilyrði í tónlist, til þess að bregðast við tækniþróun og alþjóðavæðingu og til þess að efla og styrkja íslenska menningu. Ég skora á alla flokka í þinginu (Forseti hringir.) að taka þátt í því starfi sem menntamálaráðherra hefur nú ákveðið að hleypa af stokkunum og taka á á þessu sviði líka.