145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[15:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þakkir hv. þingmanna um ágæta og málefnalega umræðu um þetta mikilvæga mál. Fyrir mér er það algjört lykilatriði að fjölmiðlar á Íslandi séu öflugir og geti sinnt starfi sínu hvort heldur sem um er að ræða þann þáttinn sem snýr að lýðræðinu, eftirlit með framkvæmdarvaldi, löggjafarvaldi og dómsvaldi, lýðræðislega vettvanginn, umræðuvettvanginn, eða menningarstarfsemi þjóðarinnar. Hvað þann þátt málsins varðar er það hárrétt sem hér hefur verið nefnt, að sjálf íslenskan er undir, íslensk tunga, þ.e. að það sé fjölmiðlun á íslensku. Ég hef mjög leitt hugann að því að eitt af því sem við þurfum að ræða kannski sérstaklega og ég hef áhuga á snýr að talsetningu á efni fyrir börn. Ég held að engin ein aðgerð skipti jafn miklu máli fyrir málþroska og máltöku og sú að það sé tryggt að það sé mikið úrval af efni á íslensku fyrir börn, helst sem mest úr íslenskum veruleika, þ.e. framleitt á Íslandi.

Ástæðan fyrir því að ég fór yfir virðisaukaskattsprósentur í nokkrum löndum, þann virðisaukaskatt sem er lagður á fjölmiðla í þeim löndum sem við berum okkur saman við, er sú að við hljótum að horfa til nágrannalandanna þegar við horfum til fyrirmyndar um það hvernig við eigum að standa að þessari skattlagningu. Það er alveg ljóst að í umhverfi þar sem Ríkisútvarpið er með u.þ.b. 55% markaðshlutdeild á ljósvakamarkaði og er á auglýsingamarkaði hlýtur að vera orðið mjög þröngt um sjálfstætt rekna fjölmiðla. Það tel ég algjörlega ljóst, líka í ljósi þess að á Norðurlöndunum, af því að við berum okkur einna helst saman við þau, eru ríkisútvörpin ekki á auglýsingamarkaði. Ef við ætlum ekki að hrófla við stöðu Ríkisútvarpsins hvað varðar auglýsingatekjur er einboðið að mínu mati að við hljótum að horfa á virðisaukaskattsprósenturnar sem eru lagðar á sjálfstætt rekna fjölmiðla. Það hlýtur að vera þannig (Forseti hringir.) að við náum um það sameiginlegri sátt að fara í slíka vinnu. Þess vegna hef ég hafið undirbúning að þeirri þingsályktunartillögu sem ég vona að leggi grunn að þverpólitísku samstarfi sem leiðir síðan til úrbóta fyrir íslenska fjölmiðla. Ekki veitir af.