145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[15:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp fyrst og fremst til að fagna því að við séum að ná þessum mikilvæga áfanga. Mig langar að þakka hv. utanríkismálanefnd og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, sem er framsögumaður þessa máls, fyrir hversu hraðar hendur þau höfðu við vinnslu málsins, en það er nýkomið inn í þingið. Það var líka full ástæða til því að verið hefur óeðlilegur dráttur á þessu máli. Það er langt síðan við undirrituðum samninginn, árið 2007. Það hefur tekið allt of langan tíma að klára þetta mál.

Þegar hér var verið að flytja málaflokk fatlaðs fólks yfir til sveitarfélaga settum við inn bráðabirgðaákvæði um að leggja ætti fram framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks þar sem m.a. væri tímasett fullgilding. Hún átti að fara fram 2013 en nú er komið árið 1016. Þetta er löngu tímabært réttindamál fyrir hóp fólks sem skiptir mjög miklu máli að fái bætta réttarstöðu til að sækja réttindi sín.

Ég þakka fyrir að utanríkismálanefnd hafi byggt á skýrslu velferðarnefndar, en við höfum nýlega fjallað um tillögu hv. þm. Kristjáns L. Möllers og fleiri um fullgildingu samningsins. Við sögðum jafnframt þegar við afgreiddum það mál frá okkur með skýrslu að við vildum í raun ekki samþykkja þá þingsályktunartillögu því að við bentum á að Alþingi væri þegar búið að samþykkja fullgildinguna og að mikilvægt væri að klára líka valfrjálsu bókunina sem og lögfestingu á samningnum. Hv. þm. Páll Valur Björnsson hefur lagt fram hér breytingartillögu um að við fullgildum líka valfrjálsu bókunina. Mér líst mjög vel á þá tillögu og vil fá skýr rök fyrir því af hverju það kynnu að vera vandkvæði á að samþykkja hana, því að ég hyggst samþykkja hana nema lögmæt rök liggi gegn því. Óska ég eftir þeim rökum hér í umræðunni, ef einhver eru.

Ég vil segja að þessi fullgilding mun valda því að það verður auðveldara fyrir fatlað fólk að byggja á samningnum fyrir dómstólum. Auk þess felur fullgildingin í sér samráðsskyldu við hagsmunaaðila, fatlað fólk, samtök þeirra og önnur samtök sem eru á þessu málasviði. Með fullgildingunni verður íslenska ríkið bundið af þjóðarrétti til að uppfylla þær skyldur sem kveðið er á um í samningnum auk þess sem við förum undir sérstaka eftirlitsnefnd sem mun skila innan tveggja ára frá fullgildingu skýrslu um framkvæmd samningsins hér á landi. Auk þess sem skuggaskýrslu aðila hér á landi verður skilað þar sem bent er á það sem betur má fara og komið með tilmæli til úrbóta.

Eins og segir í breytingartillögunni frá hv. þm. Páli Vali Björnssyni eigum við að ganga lengra með valfrjálsu bókuninni því að viðaukinn felur í sér mikilvægar réttarbætur. Annars vegar er það kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna og hins vegar er það leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum. Flutningsmaður tillögunnar mun að sjálfsögðu gera betri grein fyrir þessu en ég geri í mínu máli.

Þá er mjög mikilvægt að við tökum líka ákvörðun um lögfestingu samningsins. Hún tryggir best réttarstöðu fatlaðs fólks og ekki verður sami túlkunarvandinn fyrir hendi og þegar einungis er búið að fullgilda samninginn. Lögfestingin tryggir að hægt sé að byggja rétt fólks á samningnum fyrir dómstólum með beinum hætti. Ég endurtek: Þetta er sérlega ánægjulegt og ég fagna þessu mjög, en við eigum fleiri skref fyrir höndum. En þetta er stórt og mikilvægt skref. Ég óska öllum þeim til hamingju sem hafa á síðustu árum barist fyrir fullgildingu þessa samnings, staðið fyrir kynningu á honum og verið óþreytandi að herja á okkur stjórnmálamenn, ég vil óska öllu þessu fólki, innan Öryrkjabandalagsins, Þroskahjálpar og fleiri samtaka og einstaklingum innilega til hamingju með árangurinn. Þetta hefur kostað þrotlausa baráttu en við skulum vona að hún hafi verið þess virði.

Þá vil ég benda á að það er þó nokkuð af lögum sem við eigum eftir að breyta til þess að við uppfyllum skyldur samningsins. Nú stendur upp á okkur að klára það á næsta þingi sem út af stendur til þess að aðgerðir Alþingis eins og þessi fullgilding séu ekki bara orðin tóm. Við getum ekki verið ómerkingar. Við þurfum að fylgja þessu máli eftir með nauðsynlegum lagabreytingum.

Að lokum, hæstv. forseti, ég er ánægð með þennan áfanga og endurtek þakkir mínar til hv. utanríkismálanefndar. Það var sannarlega kominn tími til að fullgilda þennan mikilvæga mannréttindasamning.