145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki oft sem manni finnst vit, reynsla og þekking drjúpa af hverju orði, en það fannst mér um ræðu hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur, sem flutti hér afar málefnalega og innihaldsríka ræðu. Það er alveg hárrétt sem hún sagði líka að við erum alls konar og það þarf að vera pláss fyrir alla. Það sem við erum að gera hér í dag er eitt skref að því og kannski töluvert stærra skref en margir gera sér grein fyrir.

Það var eitt atriði sem mig langaði til að hnykkja á varðandi þennan samning sem upp í huga minn kom undir ræðu hv. þingmanns. Það er alveg rétt að þessum sáttmála er ekki ætlað að skapa ný réttindi og flest þau réttindi sem hann veitir eru þegar tryggð í öðrum sáttmálum. En það sem skilur með samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun og eldri samninga um mannréttindi er að í þessum nýja samningi eru réttindin í mörgum tilvikum mun betur útfærð og nánar aðlöguð að veruleika fólks með fatlanir til að veita því virkari og skýrari réttarvernd. Þannig er t.d. alveg sagt skýrt að í tjáningarfrelsinu felst það m.a. að ríkjunum ber skylda til að viðurkenna og stuðla að notkun táknmáls og blindraleturs. Það segir líka alveg skýrt í samningnum varðandi rétt til menntunar, sem við vitum að er til staðar, að það er réttur til menntunar án aðgreiningar.

Samningurinn kveður líka skýrar á um rétt fatlaðra til að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélaginu. Það felur í sér að ríkinu ber, að samningnum lögfestum, að tryggja fötluðum tækifæri (Forseti hringir.) til að velja sér búsetustað og líka að velja með hverjum þeir búa. Samningurinn strikar betur undir (Forseti hringir.) og útfærir og útskýrir réttindin sem eru til staðar. (Forseti hringir.) Það er akkurinn með samningnum.