145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að skjall mitt er að öllu leyti hættulaust. Það geta allir þingmenn borið vitni um sem hafa setið með mér á þingi síðustu 25 árin.

Það er ástæða fyrir því að ég hef kynnt mér þennan samning. Ég var ráðherrann sem á sínum tíma í tíð síðustu ríkisstjórnar tók málið upp sem utanríkisráðherra við borð ríkisstjórnarinnar. Það var ýmislegt sem menn veltu fyrir sér þar. Ýmsir embættismenn sögðu að öll þau réttindi sem væri fyrir í þessum samningi væru hvort eð er fyrir hendi. Það var þess vegna sem ég fór að skoða þennan samning og komst að því að það var vissulega rétt, en gildi hans felst í skýringum og útfærslum og undirstrikunum á því hver rétturinn er.

Þessi samningur, sem nú er orðinn partur af réttarkerfi Íslands, mun verða meira en táfesta fyrir marga sem eru að berjast fyrir réttindum fólks með fatlanir. Ég nefni t.d. það mál sem hv. þm. Páll Valur Björnsson tók hér upp fyrr í dag varðandi fötluð börn. Þessi samningur veitir meira en táfestu í baráttunni fyrir þeim réttindum sem þar eru.

Eigum við t.d. að velta fyrir okkur þeim einstaklingum sem eru að berjast fyrir því að hér verði framlengdir samningar um notendastýrða persónulega þjónustu? Þeir samningar eru í uppnámi, eins og ráðherrann veit sem situr hér á bekknum. Þetta fólk mun finna í þessum samningi skýrari syllu til að standa á í baráttu sinni við kerfið. Það er barátta sem við eigum að styðja þau í og það erum við að gera með því að samþykkja þennan samning.

Í reynd erum við að treysta undirstöðu baráttunnar fyrir auknum réttindum fólks með fatlanir og þroskahamlanir og bæta frá því sem áður var. Það er gildi þessa samnings.