145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[15:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er nákvæmlega gildi samningsins eins og segir hér í athugasemd með þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Samningurinn viðurkennir mannréttindi fatlaðs fólks, sem eru þau sömu og annarra, en staðfestir jafnframt rétt fatlaðs fólks til að njóta þessara réttinda.“

Það er alveg skýrt. Auðvitað hefði það alltaf átt að vera þannig en sú er bara ekki raunin. Það er auðvitað út af þessu sem baráttuhreyfingar fatlaðs fólks á Íslandi, sem og auðvitað annars staðar í heiminum, hafa þrýst svo mjög á um að Ísland fullgildi þennan samning vegna þess að hér er búið að skrifa það svo vel inn og útskýra það og útfæra hvernig mannréttindi fatlaðs fólks verði varin og tryggð. Því miður hefur það verið raunin þrátt fyrir að fatlað fólk eigi í orði kveðnu að búa við sömu réttindi og allir aðrir hefur það alls ekki verið svo í raunveruleikanum.

Þess vegna er það fagnaðarefni að hér sé alla vega að vinnast áfangasigur í dag. Það er fullt af verkefnum eftir, en hreyfing fatlaðs fólks getur núna farið að leggja meiri áherslu á aðra en einnig brýna þætti þegar kemur að því að bæta stöðu fatlaðs fólks í samfélagi okkar. Þrátt fyrir að hér séum við að fara að stíga mikilvægt skref (Forseti hringir.) er ýmislegt enn þá óunnið sem við þurfum að gera og bæta.