145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[15:46]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því eins og flestallir þingmenn að fagna því að við ætlum í dag að fara að samþykkja þingsályktunartillögu um fullgildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Eins og flestum er kunnugt hef ég lagt fram breytingartillögu við þá tillögu því að mér finnst eiginlega með ólíkindum að við skulum ekki fullgilda líka valkvæðu bókunina. Ég hef á ferli mínum sem þingmaður síðustu þrjú ár kynnst ótrúlega mörgu fólki sem hefur með málefni fatlaðra að gera og þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu. Margt af þessu fólki hefur kennt mér og viðtöl mín við það hafa sýnt mér að við höfum ekki staðið okkur vel í málefnum fatlaðs fólks, langt frá því. Ég hygg að tillaga þessi sé til komin núna á haustdögum vegna þess að hv. þm. Kristján Möller og fleiri þingmenn lögðu fram þingsályktunartillögu um sama mál sl. vetur. Ég held að ef hún hefði ekki verið lögð fram værum við ekki að fara að fullgilda þennan samning í dag, það er ósköp einfalt mál. Eins og fram hefur komið þarf að leiða í lög ýmsar lagabreytingar svo hægt sé að uppfylla þennan samning. Komið hefur fram í ræðum að þar með talið er til dæmis bann við mismunun.

Eftir tvo daga er eitt ár síðan við í Bjartri framtíð lögðum fram frumvarp til laga um breytingu á einmitt þessu, þ.e. um breytingu á ákvæðum ýmissa laga um bann við mismunun. Það hefur ekki einu sinni fengist rætt í nefndum. Það segir mér að ekki fylgir mikill hugur máli þegar fara á að samþykkja þetta. Því miður. Það frumvarp hefði verið búið að leysa dálítið stóran vanda hvað varðar innleiðingu laga. Við hefðum getað fullgilt þennan samning.

En burt séð frá því eru mjög gleðileg tíðindi að við ætlum að fara að fullgilda þennan samning, það er mjög stórt skref í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Fólk sem lætur sig málefni fatlaðs fólks varða kom náttúrlega fyrir hv. velferðarnefnd til að ræða þá tillögu sem var lögð fram og ég nefndi hér áðan. Eitt af því sem fær mig til að hafa mikinn áhuga á þessum málum og það að leggja líka fram valkvæða bókun er að m.a. segir í umsögn Öryrkjabandalagsins, með leyfi forseta:

„Fatlað fólk er stærsti minnihlutahópur heims og er áætlað að um 650 milljónir manna séu með einhvers konar fötlun. Þessi hópur mætir bæði lítilsvirðingu og vanmati og er ýtt lengst út á jaðarinn. Þrátt fyrir að margir mannréttindasáttmálar hafi breytt lífi margra sem tilheyra minnihlutahópum til hins betra með aukinni vernd, hefur fatlað fólk staðið fyrir utan þá framþróun og breytingu. Óháð mannréttinda- eða fjárhagsstefnum ríkja, þá er fatlað fólk sá hópur sem síst nýtur mannréttinda sinna. Sífellt er komið í veg fyrir að fatlað fólk fái notið sömu tækifæra til jafns við aðra eins og að lifa sjálfstæðu lífi og taka virkan þátt í samfélaginu.“

Þau benda enn fremur á í umsögn sinni að samningurinn svari þessu kalli, að breyta þessu. Þau segja líka, með leyfi forseta:

„Með samningnum viðurkenna aðildarríki fatlað fólk sem virka borgara og samfélagsþegna en ekki sem óvirka þiggjendur góðgerðar og velferðar.“

Ég fagnaði því að samningurinn skyldi vera samþykktur og það gerðist mjög snöggt. Það má þakka hv. utanríkismálanefnd fyrir að hafa tekið á málinu af festu og reynt að flýta því í gegn. En það er búin að vera smá ólund í mér síðan ég sá að búið var að ákveða, og það var til síðari umr. í dag, að við skyldum ekki stíga skrefið til fulls og fullgilda valkvæðu bókunina. Margt fólk hefur látið sig málefni fatlaðra varða í áratugi og barist fyrir réttindum þess, eins og t.d. samtökin Þroskahjálp, en þar eru í forsvari Árni Múli Jónasson sem er framkvæmdastjóri landssamtakanna og Bryndís Snæbjörnsdóttir sem er formaður þeirra. Þau skrifuðu grein í ágúst í Kjarnann um þetta málefni sem mér er mjög hugleikin. Mig langar að lesa hana fyrir ykkur, með leyfi forseta.

„Mannréttindi og metnaðarleysi. Hvað eru mannréttindi?“ er yfirskrift þessarar greinar.

„Mannréttindi eru tiltekin lagaleg réttindi sem er viðurkennt að eru öllu fólki svo mikilvæg að þjóðir heims hafa komið sér saman um að öll ríki verði að gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að allir fái notið þessara réttinda, alltaf og alls staðar.  

Grundvallarmannréttindi eru skilgreind í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1948 og skýrð og útfærð í mannréttindasamningum sem ríki heims hafa fullgilt og þar með skuldbundið sig til að virða og framfylgja. Dæmi um mikilvæg mannréttindi er rétturinn til að njóta frelsis, hafa skoðanir og tjá þær, stunda nám og atvinnu og hafa aðgang að heilsugæslu og að njóta þessara mannréttinda og annarra lagalegra réttinda til jafns við aðra en fá ekki verri tækifæri til þess vegna tiltekinna einkenna eða stöðu, svo sem kynþáttar, kynferðis, trúarbragða eða fötlunar.  

En það er eins með mannréttindi og önnur lög að þau eru brotin. Sumir eru heiðarlegir og fara að lögum, aðrir brjóta lög ef þeir telja sig hafa persónulegan ávinning af því og komast upp með það. Sum ríki taka mjög alvarlega þá skyldu sína að tryggja öllum mannréttindi, önnur vanrækja það eða reyna að komast hjá því. Og á sama hátt og sá sem er heiðarlegur nýtur virðingar og trausts annars fólks í samfélaginu nýtur ríki sem virðir vel skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum virðingar og trausts annarra ríkja í alþjóðasamfélaginu.“

„Evrópuráðið og eftirlit með mannréttindum“ er yfirskrift kafla 2.

„Það er ekki til nein alheimslögregla sem bregst við þegar ríki brjóta alþjóðleg mannréttindalög á fólki. Þess vegna hafa ríki samið um að fela fjölþjóðlegum stofnunum að fylgjast með hvernig einstök ríki standa sig við að tryggja fólki þau mannréttindi sem þau hafa skuldbundið sig til að gera. Evrópuráðið er mjög mikilvæg slík stofnun sem nýtur mikillar virðingar á alþjóðavettvangi.

Evrópuráðið var stofnað árið 1949 í kjölfar hörmunga síðari heimsstyrjaldarinnar. Aðildarríki þess eru 47 að Íslandi meðtöldu. Hlutverk Evrópuráðsins er að efla samvinnu aðildarríkjanna með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa. 

Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins er sjálfstæð stofnun innan ráðsins sem hefur meðal annars það hlutverk tryggja að aðildarríkin framfylgi samningum og tilmælum frá ráðinu. Álit og ábendingar mannréttindafulltrúans skipta því mjög miklu máli og hafa mikið vægi á vettvangi Evrópuráðsins og í aðildarríkjum þess. 

Nils Muiznieks, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, var í heimsókn á Íslandi fyrr í þessum mánuði til að kynna sér ástand mannréttindamála. Að lokinni heimsókninni ræddi hann við fjölmiðla og sagðist þar furða sig á metnaðarleysi Íslendinga í mannréttindamálum. Hann sagði m.a.:

„Ég tel Ísland vera auðugt land miðað við mörg þeirra landa sem ég hef komið til. Hér ríkir lýðræði og það á sér langa sögu hér og það kemur mér á óvart að þið hafið ekki sýnt meiri metnað við að axla þessa ábyrgð og stefna að framförum.“

Mannréttindafulltrúinn benti sérstaklega á að Íslendingar hefðu ekki enn þá skuldbundið sig til að framfylgja samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks frá árinu 2007 með því að fullgilda samninginn en langflest í ríki í heiminum hafa gert það, þar með talin öll Norðurlandaríkin nema Ísland.

Þetta er að sjálfsögðu mikill áfellisdómur yfir íslenskum stjórnvöldum frá aðila sem þau hljóta og verða að taka mark á.

Hvers vegna er mikilvægt að Ísland fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?

Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki tækifæri til sjálfstæðs og eðlilegs lífs og verja það fyrir mismunun á ýmsum mikilvægum sviðum. Með fullgildingu samningsins skuldbindur ríkið sig til að tryggja fötluðu fólki öll þau lágmarksréttindi sem samningurinn mælir fyrir um og til að gera nauðsynlegar breytingar á íslenskum lögum, reglum, stjórnsýsluframkvæmd og þjónustu til að tryggja að kröfur sem samningurinn gerir verði uppfylltar.  Þegar ríki fullgildir samninginn skuldbindur það sig til að gefa eftirlitsnefnd sem starfar samkvæmt samningnum reglulega skýrslur um hvað það hefur gert til að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. Við þá skýrslugjöf skulu ríki hafa samráð við fatlað fólk með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. Eftirlitsnefndin fjallar um skýrslurnar og beinir síðan  tilmælum sínum til ríkjanna um það sem betur má fara og brýnt er að gera.

Þessar skýrslur og umfjöllun nefndarinnar um þær og tilmæli hennar um ráðstafanir og úrbætur fela í sér mjög mikilvægt aðhald gagnvart hlutaðeigandi ríkjum og gagnlegar leiðbeiningar fyrir stjórnvöld um hvað þau þurfa að gera og bæta til að uppfylla kröfur samningsins.

Valfrjáls bókun við samninginn. 

Ísland undirritaði valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um leið og það undirritaði samninginn sjálfan árið 2007. Valfrjálsa bókunin mælir fyrir um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa sem telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hafa árangurslaust nýtt þau úrræði sem þeir hafa samkvæmt íslenskum lögum og stjórnkerfi til að ná því fram sem þeir telja sig eiga rétt á samkvæmt samningnum.

Eftirlitsnefndin getur óskað upplýsinga frá ríkjum og beint tilmælum til þeirra. Með því að fullgilda valfrjálsu bókunina verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks verður meira og mannréttindi þess betur varin.“

Um þetta snýst málið. En ég ætla að klára þessa grein því þau halda áfram og segja:

„Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var tekinn í íslensk lög árið 2013. Það var gert til að tryggja enn betur en gert var með fullgildingu samningsins þau réttindi sem samningurinn mælir fyrir um. Sömu rök eiga við um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með því að lögfesta samninginn verður mannréttindum fatlaðs fólks veitt aukin vernd og réttaröryggið eykst. Fatlaður einstaklingur getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir dómi og stjórnvöldum. Lögfesting mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni fatlaðs fólks fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi fatlaðs fólks og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki.

Lögfesting samningsins um fatlað fólk mun og auka, á alþjóðavettvangi, traust á virðingu íslenska ríkisins fyrir mannréttindum fatlaðs fólks.“

Þau segja að lokum í þessari grein sinni:

„Rekum af okkur slyðruorðið!

Því miður verður ekki hjá því komist að taka undir orð mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins um að það lýsi furðulegu metnaðarleysi í mannréttindamálum að hafa ekki enn þá komið því í verk að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þó að níu ár séu nú liðin frá undirritun samningsins og langflest ríki í heiminum hafi fullgilt hann.“

Höfundar greinarinnar skora því á íslensk stjórnvöld að reka nú af sér slyðruorðið með því að fullgilda samninginn án frekari tafa og einnig valfrjálsu bókunina við hann og taka síðan samninginn í íslensk lög eins skjótt og verða má.

Hér talar fólk af þekkingu og viti. Ég ákvað í framhaldi af því að hafa lesið greinina og velt henni fyrir mér lengi að leggja fram breytingartillögu um þessa tillögu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í stað orðanna „sem undirritaður var“ í tillögugreininni komi: og valkvæðan viðauka við samninginn, sem hvort tveggja var undirritað.“

Ég legg fram þessa breytingartillögu. Hér er lögð fram þingsályktunartillaga um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem hæstv. utanríkisráðherra hefur nú lagt fram. Ég vil breyta henni þannig að hún nái til hins valkvæða viðauka við samninginn. Eins og fram kemur í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra felur viðaukinn í sér tvær leiðir til viðbótar þeim sem samningurinn sjálfur mælir fyrir um, sem eftirlitsnefnd með samningnum getur nýtt sér. Annars vegar er um að ræða kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndarinnar, hins vegar leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum með samþykki viðkomandi aðildarríkis. Valkvæða bókunin veitir einstaklingum og hópum kæruleið ef þeir telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hafa árangurslaust nýtt sér þau úrræði sem þeir hafa samkvæmt íslenskum lögum og stjórnkerfi til að ná því fram sem þau telja sig eiga rétt á samkvæmt samningnum. Eftirlitsnefndin getur óskað upplýsinga frá ríkjum og beint tilmælum til þeirra, eins og fram hefur komið hér áður. Með því að fullgilda valkvæða viðaukann verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks verður meira og mannréttindi þess verða betur varin. Það er nákvæmlega það sem ég sagði áðan.

Í athugasemdum með þingsályktunartillögu utanríkisráðherra segir: Ekki er lagt til að svo stöddu að viðaukinn verði fullgiltur hér á landi. Ekki er skýrt neitt nánar hvers vegna. Það væri mjög fróðlegt að fá að vita hvers vegna svo er ekki. Hvers vegna er ekki sagt frá því í greinargerðinni að ekki standi til að fullgilda þennan viðauka og skýringar á því? Hvað veldur að það er ekki hægt?

Ég heyrði úti í bæ í gær að ástæðan væri sú að embættismenn eða kerfið mæltu ekki með því. Mér skilst líka að embættismannakerfið sé ekkert voðalega hrifið af því að við séum að fullgilda þennan samning. Hvers vegna er það? Eiga einhverjir andlitslausir embættismenn að ákveða hvort við fullgildum samninga eða ekki? Ég er ekki sammála því, en þetta hef ég heyrt. Ég sel það ekki dýrar en ég keypti það. Það var fulltrúi sem er fatlaður sem sagði í gær á hinni heimsfrægu Facebook að embættismannakerfið kærði sig ekki um það og mælti ekki með því. Það finnast mér léleg rök fyrir því að gera það ekki.

Ég legg til að þessi valkvæði viðauki, eða valfrjálsa bókun eins og hún er líka kölluð, verði fullgiltur um leið og samningurinn sjálfur og að þingsályktunartillögu þeirri sem hér liggur fyrir verði breytt samkvæmt því. Ég hef fengið mikinn stuðning vegna þessarar tillögu úti í samfélaginu. Fólk gleðst yfir að við skulum gera þetta. Það gleðst líka yfir að við skulum fullgilda samninginn, en ég hef fengið miklar áskoranir frá fólki úti í samfélaginu um að halda þessu til streitu. Ég nefni til dæmis áskorun sem barst öllum þingmönnum og ráðherra frá Tabú, sem er femínísk hreyfing sem beinir sjónum sínum að margháttaðri mismunun gagnvart fötluðu fólki. Hún er sprottin af baráttukrafti kvenna sem hafa sjálfar mátt þola misrétti, ofbeldi og kúgun á grundvelli fötlunar sinnar. Ég vil lesa bréfið sem kom frá Tabú í dag, með leyfi forseta.

„Tabú, femínísk fötlunarhreyfing, skorar á Alþingi að samþykkja tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, ásamt breytingartillögu Páls Vals Björnssonar þingmanns, þess efnis að samhliða fullgildingu samningsins verði valkvæður viðauki hans einnig fullgiltur.

Fullgilding viðaukans er nauðsynleg svo raunveruleg breyting verði á réttarstöðu fatlaðs fólks á Íslandi. Með viðaukanum er annars vegar tryggt að einstaklingar hafi aðgang að kvörtunarleið til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hins vegar að nefndin geti rannsakað alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum, með samþykki viðkomandi aðildarríkis. Ísland hefur staðfest viðauka annarra alþjóðlegra mannréttindasamninga og því ætti það sama að gilda um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Við skorum á þingheim að sýna þá virðingu og þann metnað fyrir mannréttindum fatlaðs fólks, að fullgilda samninginn með valkvæða viðaukanum og þannig taka nauðsynleg skref í átt að því að tryggja réttarstöðu fatlaðs fólks á Íslandi, svo hún verði sambærileg réttarstöðu fatlaðs fólks í öðrum velferðarríkjum.“

Ég tek heils hugar undir þessa áskorun og vona að þingheimur samþykki breytingartillögu mína. Það eru engin efnisleg rök fyrir að gera það ekki. Það hafa engin rök verið færð fyrir því hvers vegna það er ekki gert og engar skýringar gefnar á því.